Sveinn Gestur neitaði sök við þingfestingu

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson  -  RÚV
Sveinn Gestur Tryggvason, sem er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás í Mosfellsdal í byrjun sumars, neitaði sök þegar ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Fjölskylda Arnars Jónssonar Aspars, sem lést í árásinni, krefur Svein Gest um 63 milljónir.

Sveinn hefur alltaf neitað sök, líka þegar hann sat í gæsluvarðhaldi vegna gruns um manndráp.  Sveinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því að hann var handtekinn ásamt fimm öðrum í tengslum við árásina en þeim hefur öllum verið sleppt og hefur enginn þeirra réttarstöðu sakbornings.

Sveini Gesti er gefið að sök að hafa haldið báðum höndum Arnars fyrir aftan bak, þar sem hann lá á maganum á jörðinni, farið klofvega yfir bak hans og notað líkamsþunga sinn til að halda Arnari föstum. Þá er hann í ákærunni sagður hafa tekið Arnar hálstaki og slegið hann ítrekað í andlit og höfuð með krepptum hnefa. 

Í ákærunni er Arnar sagður hafa látið lífið af völdum mikillar minnkunar á öndunarhæfni sem er sögð hafa ollið banvænni stöðukæfingu sem megi rekja til einkenna æsingsóráðs, þeirrar þvinguðu frambeygðu stöðu sem hann var í, þunga Sveins Gests, hálstaks í langan tíma og mótspyrnu hans sjálfs.

Í ákærunni koma fram einkaréttakröfur frá fjölskyldu Arnars, meðal annars foreldrum hans, dóttur frá fyrra sambandi, barnsmóður hans og nýfæddu barni þeirra. Samtals nema kröfurnar um 63 milljónum.