Svefnlausir karlar og streita hjá konum

29.02.2016 - 14:52
Þrjár konur stunda jóga.
Embætti landlæknis hefur áhyggjur af því að umtalsverður hluti landsmanna hreyfi sig lítið sem ekki neitt.  Mynd: Pixabay
Embætti landlæknis hefur áhyggjur af því hversu hátt hlutfall íslenskra karla fær ekki nóga hvíld á nóttinni og hversu hátt hlutfall íslenskra kvenna upplifi streitu. Það sé áhyggjuefni að umtalsverður hluti landsmanna hreyfi sig lítið sem ekkert og embættið bendir á að drykkja sé töluverð meðal landsmanna. Engu að síður sögðust 64 prósent kvenna og 60 prósent karla vera hamingjusöm árið 2015.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum talnabrunni embættis Landlæknis sem byggður er á skoðanakönnun Capacent sem gerð var dagana  26. nóvember til 15. desember.  Úrtakið var 2.819, 18 ára og eldri, sem valdir voru af handahófi. Þátttökuhlutfall var 61 prósent.

Könnunin leiddi í ljós að enn dregur úr reykingum hjá Íslendingum - hlutfall þeirra sem segjast reykja daglega er nú 10 prósent. Sérstaka og ánægjulega athygli vekur að 73 prósent í aldurshópnum 18 til 24 segjast aldrei hafa reykt.

Landlæknir segir að ölvunardrykkja sé töluverð meðal landsmanna og athygli veki hversu lítill munur sé á drykkju karla og kvenna í aldurshópnum 18 til 24 ára. 52 prósent karla í þessum aldurshópi drekkur sig fullan oftar en einu sinni í mánuði - 45 prósent kvenna.

Landlæknir nefnir einnig gosdrykkju karla en fjórðungur þeirra drekkur sykraða drykki fjórum sinnum í viku eða oftar. Mikilvægt sé að auka enn frekar neyslu ávaxta og grænmetis og draga úr neyslu á gosdrykkjum. Til þess þurfi að beita markvissum aðgerðum, að mati landlæknis,  meðal annars með stjórnvaldsaðgerðum.

Landlæknir hefur einnig áhyggjur af hreyfingarleysi hjá umtalsverðum hluta landsmanna og hversu hátt hlutfall hjá körlum segist fá of lítinn svefn. Könnun Capacent leiddi í ljós að  um 34 prósent karla sefur 6 klukkustundir eða skemur á nóttu.  Þá sé það einnig áhyggjuefni hversu hátt hlutfall kvenna finni fyrir mikilli streitu í daglegu lífi eða 34 prósent.

Embættið bendir þó á að Íslendingar meti andlega heilsu sína almennt góða og að meirihluti þeirra, sem tóku þátt, telji sig vera hamingjusama.

 

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV