Svala syngur Paper án undirleiks

12.03.2017 - 16:19
Svala Björgvinsdóttir, fulltrúi Íslands í Eurovision í vor, segist hlakka til að taka þátt í keppninni sem í ár fer fram í Kænugarði í Úkraínu. Hún ætlar sér að njóta augnabliksins á meðan á ævintýrinu stendur, gera sitt besta og vonast til að gera þjóðina stolta.

Svala segir að ekki megi breyta laginu fram að keppninni, samkvæmt reglum EBU. „Ég er mjög ánægð með það vegna þess að við unnum rosalega lengi að þessu lagi. Þetta var margra mánaða ferli að fullvinna lagið. Þetta var ekki gert á tveimur dögum. Lagið var samið fyrir ári síðan þannig að það er búið að vinna í laginu í langan tíma.“

Svala segir að pabbi hennar, Björgvin Halldórsson, hafi ráðið sér heilt. Miklu skipti að hafa taka sig ekki of alvarlega, það skipti miklu að njóta þess að vera á staðnum og tapa sér ekki í stressi. Væntingarnar séu alltaf miklar,  alla langar til að vinna. 

Svala er fatahönnuður og ætlar sér að hanna sjálf fötin sem hún klæðist í keppninni. Hún er ekki búin að ákveða hvernig fötin verða að öðru leyti en því að þau verði hvít. 

Svala tók lagið sitt, Paper, án undirleiks síðdegis og má horfa á það í spilaranum hér fyrir ofan. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV