Suu Kyi sendir staðgengil á allsherjarþing

13.09.2017 - 05:35
Erlent · Asía · Mjanmar
epa05880220 Myanmar's State Counselor Aung San Suu Kyi delivers a speach during a ceremony for the National Health Plan (2017-2021) at the Myanmar International Convention Center in Naypyitaw, Myanmar, 31 March 2017.  EPA/HEIN HTET
 Mynd: EPA
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmars, hefur ákveðið að verða ekki viðstödd allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna síðar í þessum mánuði. AFP fréttastofan hefur þetta eftir talsmanni stjórnvalda. Varaforsetinn Henry Van Thio verður staðgengill hennar. 

Vaxandi óánægja er með Suu Kyi í embætti, þá sérstaklega aðgerðarleysi hennar gagnvart grimmd stjórnvalda í garð Rohingja sem flýja landið í ofboði. Yfirmaður mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, Zeid Ra'ad Al Hussein, sakar Mjanmar um kerfisbundnar árásir gegn Rohingjum og segir allt líta út fyrir að þetta séu þjóðernishreinsanir. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ætlar að ræða ástandið á fundi sínum í dag, en yfir 370 þúsund Róhingjar hafa flúið yfir landamærin til Bangladess.

Þegar Suu Kyi kom á allsherjarþingið sem leiðtogi Mjanmars í fyrsta sinn í fyrra hét hún því að berjast fyrir réttindum minnihlutahóps múslima í Rakína-héraði. Hún vildi finna leiðir sem leiddu til friðar, stöðugleika og þróunar fyrir öll samfélög héraðsins. 

Síðan þá hefur stjarna þessa friðarverðlaunahafa Nóbels hrapað hratt. Sömu hópar og börðust fyrir því að hún hlyti verðlaunin fyrir baráttu sína gegn herforingjastjórninni í Mjanmar berjast nú fyrir því að hún verði svipt þeim vegna aðgerðarleysis hennar í garð Rohingja.