Suður-Súdan tapar á olíusölu

20.01.2016 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Suður-Súdan tapar á því að selja hráolíu sína og nemur tapið að minnsta kosti fjórum dollurum af hverri tunnu af hráolíu sem seld er úr landi. Þetta fullyrða sérfræðingar í viðtölum við fréttastofuna AFP.

Þeir segja að hráolían frá Suður-Súdan sé ekki í hæstu gæðaflokkum og því fáist einungis um 20 dollarar fyrir hverja tunnu. Til að koma olíunni til hafnar og þaðan á markað þurfi að flytja hana eftir leiðslum um Súdan, en granninn í norðri taki fyrir fast verð eða 24 dollara á hverja tunnu. Munurinn sé því núna fjórir dollarar.

Útvarpsstöð í Suður-Súdan segir að stjórnvöld þar séu að reyna að gera nýjan samning við ráðamenn í Kartúm um flutning á olíu og flutningsgjald.

Á vefsíðu Sudan Tribuna er vitnað í minnisblað frá olíumálaráðuneyti landsins sem segir að ekki sé hægt að selja olíu með tapi og því komi til greina að stöðva allan útflutning á hráolíu. 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV