Styttist í lok rannsóknarinnar

19.02.2017 - 18:44
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Það sér fyrir endann á starfi rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum S-hópsins á hlutabréfum ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2002. Upphaflega var stefnt að því að ljúka rannsókninni fyrir síðustu áramót. Það tafðist þegar atbeina dómstóla þurfti til að fá Ólaf Ólafsson og Guðmund Hjaltason, forsvarsmenn Eglu, og tvo til viðbótar til að svara spurningum rannsóknarnefndarinnar. Þeim skýrslutökum er lokið og fóru þær fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Rannsóknin hófst vegna nýrra gagna sem Umboðsmaður Alþingis fékk í sínar hendur. Hann mælti með frekari rannsókn á grundvelli þeirra.

Ólafur og Guðmundur voru í forsvari fyrir félagið Eglu sem var stærsta félagið sem tók þátt í kaupunum á nær helmingshlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2002. Hauck & Aufhäuser var meðal hluthafa samkvæmt kynningu á fjárfestahópnum þegar gengið var frá samningum um kaupin á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.