Stunguárás á háskólasvæðinu telst upplýst

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Maður, sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að stinga annan mann með hnífi á svæði Háskóla Íslands um helgina, hefur játað. Málið telst upplýst.

Árásin varð fyrir utan stúdentagarðana við Sæmundargötu aðfaranótt sunnudags. Árásarmaðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á miðvikudag. Hann hefur nú játað, eins og mbl.is greinir frá, og það staðfestir Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Árni Þór segir að lögreglan sé með árásarvopnið, búið sé að yfirheyra lykilvitni og málið teljist upplýst. Árásarmaðurinn og fórnarlambið þekkist. Í fyrramálið verði ákveðið hvort krafist verði lengra gæsluvarðhalds.

Sá sem var stunginn liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítalans og er haldið sofandi í öndunarvél.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV