Stuðningur gæti numið hundruðum milljóna

21.08.2017 - 21:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkið gæti þurft að verja nokkur hundruð milljónum til lausnar á vanda sauðfjárbænda. Fjármálaráðherra segir að ef hægt er að finna varanlega lausn á vandanum muni ríkisstjórni ekki hika.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti hugmyndir um lausn á vanda sauðfjárbænda á fundi atvinnuveganefndar Alþingis í morgun. Hún segir að fækka þurfi sauðfé um 20% á næstu árum. Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um aðkomu ríkisins en að málið þurfi að skýrast á næstu dögum: „Annars vegar þarf að taka á vanda bænda núna, það er mjög alvarlegur vandi fyrir þá og þess vegna hafa þeir komið og óskað eftir breytingum á sínum samningum. Í öðru lagi þarf þá að gæta þess að þetta komi ekki fyrir aftur og við stöndum ekki í sömu sporum næsta haust. Ef það er hægt að tryggja að þetta gerist ekki aftur þá held ég að ríkisstjórnin muni ekki hika við að koma til móts við vanda bænda núna“.

Ýmsar hugmyndir enn til skoðunar

Benedikt segir að draga þurfi úr framleiðsluhvötum í búvörusamningnum. En fleira er til skoðunar. „Það hefur verið talað um það að það væri hægt að hjálpa eldri bændum að hætta búskap með því að borga þeim út nokkurra ára greiðslur, það er ein hugmynd. Í raun eins og fyrirfram greiðsla á því sem þeir ella myndu fá með því að halda óbreyttri framleiðslu miðað við núverandi samninga“.

Hundruð milljóna króna stuðningur

Verði þessi leið farin kostar það ríkissjóð umtalsvert, segir fjármálaráðherra: „Já, þetta eru talsverðar fjárhæðir, það eru einhver hundruð milljóna sem við værum að sjá en ég held að allir geti verið sammála um að við ætlum að reyna að leysa þetta eins varanlega og við getum.“