Stuðningsfjölskyldur flóttamanna tilbúnar

18.01.2016 - 22:12
Mynd með færslu
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.  Mynd: RÚV
Á þriðja hundrað manns koma á einn eða annan hátt að móttöku sýrlensku flóttamannanna sem koma hingað til lands á morgun. Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands segir allt tilbúið og að vel hafi gengið að finna stuðningsfjölskyldur fyrir alla.

Sex sýrlenskar fjölskyldur koma frá Beirút á morgun, 13 fullorðnir og 22 börn. Formleg móttaka verður síðdegis á morgun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en því næst halda fjórar fjölskyldur til Akureyrar og tvær í Kópavog þar sem sem íbúðir og gestafjölskyldur taka á móti þeim.

Undirbúningur fyrir komu sýrlensku fjölskyldnanna hefur staðið í nokkurn tíma en velferðarráðuneytið gerði í nóvember samninga við Akureyri, Kópavog og Hafnarfjörð um móttöku 55 flóttamanna. Upphaflega var ráðgert að fólkið kæmi til landsins í lok desember en það reyndist ekki gerlegt. 

Fjórar fjölskyldur, alls 23 manns, fara til Akureyrar en hinir 12 fara í Kópavoginn. För barnshafandi konu sem átti líka að koma á morgun ásamt fjölskyldu sinni, var frestað þar sem svo langt ferðalag þótti ekki ráðlegt. Þá hættu þrjár aðrar fjölskyldur við að koma. Aðrir flóttamenn koma í þeirra stað innan fárra vikna en sá hópur sest að í Hafnarfirði og Kópavogi. 

Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands segir að stórar fjölskyldur hafi boðið sig fram og farið á námskeið til að undirbúa sig. Samningurinn við velferðarráðuneytið er til 14 mánaða en ljóst er að verkefnið tekur lengri tíma.

„Við auðvitað vöndum okkur og þetta tekur lengri tíma en rúmt ár. Fjölskyldurnar sem eru stuðningfjölskyldur mynda líka oft tengsl við flóttafólkið og þetta verða vinir og kunningjar.“ 

Rakel Þorbergsdóttir
Fréttastofa RÚV