Stórveldið hætt rekstri

12.03.2016 - 08:35
Mynd með færslu
 Mynd: Stórveldið - YouTube  -  RÚV
Framleiðslufyrirtækið Stórveldið er hætt rekstri. Eigandi þess og framkvæmdarstjóri, Hugi Halldórsson, segir að reksturinn hafi ekki gengið lengur eftir breytingar á rekstrarumhverfi innlendrar framleiðslu undanfarin ár. Hann segir ákvörðunina mjög erfiða.

Stórveldið hefur framleitt mikið af innlendu sjónvarpsefni á undanförnum árum. Þar má telja síðasta áramótaskaup, Ferðastiklur, Andra á flandri, Drekasvæðið, Ameríska og Evrópska drauminn og margt fleira.

„Þetta er eins og gengur í öðrum rekstri þegar tekjur eru lægri en kostnaður,“ segir Hugi. „Þetta er mér auðvitað persónulega mjög erfið ákvörðun, að hætta í rekstri, en dæmið gengur bara ekki upp.“ Hugi segir að þrátt fyrir að Stórveldið sé hætt rekstri sé unnið sé að því að klára þau verkefni sem í gangi voru.

Hugi segir að rekstrarumhverfi fyrir innlenda framleiðslu hafi breyst á undanförnum árum. „Bæði hafa verðin lækkað og sjónvarpsstöðvarnar eru farnar að gera meira sjálfar. Kakan er orðin minni og ef þú færð ekki væna sneið af henni gengur reksturinn ekki upp.“

Aðspurður hvort Stórveldið geti staðið við gerðar skuldbindingar segir Hugi að svo sé ekki og það sé ástæða þess að fyrirtækið hætti í rekstri. „Ég er að tala við fólk þessa dagana og fara yfir þetta. Þetta er auðvitað bara ömurleg staða og mjög erfitt.“

Hugi segist ekki vita hvað taki við hjá sér í framhaldinu.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV