Stórtónleikar í bígerð á Menningarnótt

11.08.2017 - 17:04
Mynd með færslu
 Mynd: www.thelineofbestfit.com
Stórtónleikar Rásar 2, Tónaflóð 2017, verða haldnir við Arnarhól á Menningarnótt 19. ágúst nk. Eru tónleikarnir stærstu útitónleikar ársins, og eru flytjendur að þessu sinni Reykjavíkurdætur, Friðrik Dór, Síðan skein sól og Svala. Verður þetta í 15. skiptið sem tónleikarnir eru haldnir.

Reykjavíkurdætur hefja leika klukkan 20:00, en sveitina skipa þær Anna Tara Andrésdóttir, Ásthildur Sigurðardóttir, Bergþóra Einarsdóttir, Jóhanna Rakel Jónasdóttir, Katrín Helga Andrésdóttir, Kolfinna Nikulásdóttir, Salka Valsdóttir, Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir, Solveig Pálsdóttir, Steiney Skúladóttir, Steinunn Jónsdóttir, Valdís Steinarsdóttir, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.

Sveitin var stofnuð árið 2013 og kom eins og stormsveipur inn í íslenska tónlistarsenu, en fram að því hafði farið afskaplega lítið fyrir konum í íslensku rappi. Þær hafa vakið mikla athygli fyrir ögrandi og óheflaða sviðsframkomu, en tónlistin er að auki harðpólitísk og í textunum má finna harða ádeilu á kynjamisrétti og stjórnleysi í neyslusamfélagi. Sveitin hefur að auki notið velgengni erlendis en þær slógu til að mynda í gegn á tónlistarhátíðinni G-festival í Færeyjum fyrr í sumar. Þær munu spila á tónleikum í Hollandi kvöldið fyrir Menningarnótt, og munu fljúga til Íslands aðeins nokkrum klukkustundum áður en þær hefja leik á Tónaflóði.

Friðrik Dór mun stíga næst á svið, en hann er einn vinsælasti tónlistarmaður landsins um þessar mundir. Í byrjun sumars sendi hann frá sér smellinn Hringd‘í mig sem hefur hlotið gríðarlega spilun jafnt í útvarpi og á streymisveitum. Friðrik mætir til leiks íklæddur sparifötum ásamt 11 manna hljómsveit, sem samkvæmt fréttatilkynningu er skipuð landsliðinu í íslenskri tónlist.

Svala mun spila á tónleikunum og hún kemur sérstaklega til Íslands að þessu tilefni, en hún er búsett í Los Angeles. Munu þessir tónleikar vera leið hennar til þess að „binda slaufu“ á Eurovision-árið hennar Svölu, en hún mun að sjálfsögðu syngja keppnislagið Paper og önnur vel valin lög.

Síðan Skein Sól var gríðarlega vinsæl hljómsveit á tíunda áratugnum, en sveitin gaf út hverja plötuna á fætur annari fyrstu 6 árin, og spilaði að auki um allt land. Hljómaði tónlist sveitarinnar alla daga á Rás 2. Þetta árið fagnar hljómsveitin 30 ára afmæli sínu og er því sannur heiður fyrir Tónaflóð 2017 að fá reynslubolta á borð við Helga Björnsson og félaga hans með í gleðina, en hljómsveitin mun loka kvöldinu. Í spilaranum að neðan má sjá Helga Björnsson flytja slagarann Vertu þú sjálfur í Hörpunni þann 17. júní 2011.

Facebooksíðu viðburðarins má nálgast hér.

Tónleikarnir verða í beinni útsendingu á Rás 2, RÚV og RÚV HD.

Mynd með færslu
Nína Richter
vefritstjórn
Poppland
Þessi þáttur er í hlaðvarpi