Stórt tap gegn Þýskalandi í fyrsta leik

11.08.2017 - 19:21
Mynd með færslu
 Mynd: KKÍ
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik tapaði fyrsta leik sínum á alþjóðlegu æfingamóti sem fram fer í Kazan í Rússlandi. Mótið er hluti af undirbúning liðsins fyrir Evrópumótið í körfubolta sem fram fer í Finnlandi í haust eða Eurobasket eins mótið er einnig kallað.

Ísland tapaði 90-66 fyrir Þýskalandi í kvöld en íslenska liðið var þó yfir eftir fyrsta leikhluta. Staðan þá 20-13 Íslandi í vil. Leikurinn jafnaðist svo út í öðrum leikhluta og þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik var staðan orðin 40-38 Þýskalandi í vil.

Ísland átti svo aldrei möguleika í síðari hálfleik og að lokum vann Þýskaland öruggan sigur. Vert er að taka fram að Jón Arnór Stefánsson, leikmaður KR, var ekki með en hann er að glíma við smávægileg meiðsli í nára.

Stigahæstir hjá íslenska liðinu var Martin Hermannsson með 12 stig, þar á eftir kom Tryggvi Snær Hlinason með 10 stig.

Ísland mæti Ungverjalandi á morgun og Rússlandi á sunnudaginn.

Vefur Morgunblaðsins greindi frá.

Evrópumótið í körfuknattleik fer fram dagana 31. ágúst til 6. september og verða allir leikir Íslands í beinni á RÚV ásamt því að aðrir leikir verða sýndir beint á RÚV og RÚV2. Tímasetningar leikjanna má finna á íþróttasíðu okkar.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður