Stórsókn ISIS í útjaðri Bagdad

28.02.2016 - 13:55
Mynd með færslu
Liðsmenn íslamska ríkisins í Norður-Írak.  Mynd: wikipedia
Vígasveitir hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki hafa gert stórsókn að Bagdad, höfuðborg Íraks, síðustu klukkustundir. Hermt er að tugir stjórnarhermanna hafi fallið í hörðum bardögum í borginni Abu Ghraib, sem er um tuttugu kílómetrum frá Bagdad og er hluti af sama sveitarfélagi. Í þeirri borg stendur alræmt fangelsi þar sem bandarískir hermenn pyntuðu íraska fanga árið 2003.

Vígasveitirnar eru sagðar hafa náð nokkrum úthverfum og þorpum á sitt vald. Þá tóku þær hermenn og lögreglu í gíslingu. Á sama tíma réðust vígamenn á bækistöðvar lögreglunnar í Fallujah, sem er um fimmtíu kílómetrum frá Bagdad, og náðu henni á sitt vald. Stjórnarherinn hefur hörfað á nokkrum stöðum. 

Uppfært kl. 15.43:

Á fjórða tímanum sprungu sprengjur í hverfum sjía-múslima í Bagdad. Að minnsta kosti 22 eru látnir og yfir 60 særðir eftir þær árásir.

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV