Stórsigur Macron samkvæmt útgönguspám

18.06.2017 - 18:21
epa06035205 French President Emmanuel Macron shakes hands with people during the ceremony to mark the 77th anniversary of General Charles de Gaulle's appeal of 18 June 1940, at the Mont Valerien memorial in Suresnes, near Paris, France, 18 June 2017.
 Mynd: EPA  -  AFP POOL
Flokkur Emmanuel Macron frakklandsforseta er vinnur stórsigur í frönsku þingkosningunum ef marka má útgönguspár. Fréttastofan AFP segir að búist megi við því að flokkur Macron og samstarfsflokkur hans vinni 355-425 sæti af 577.

Sigurinn yrði minni en kosningaspár höfðu gert ráð fyrir. Útgönguspár benda til þess að flokkur Macron, La République en Marche,  og samstarfsflokkurinn, MoDem, fái mun færri þingsæti en þau 470 sem kannanir í vikunni spáðu fyrir um.

Fái flokkur forsetans 355 þingsæti er það rúm 61% þingsæta, að því er fram kemur á vef franska dagblaðsins Le Monde.

Franski fréttavefurinn The Local segir að breytingarnar í franskri pólitík séu svo miklar að þeim megi líkja við árið 1958 þegar núverandi kosningakerfi var tekið upp eða til breytinganna sem urðu í frönskum stjórnmálum í kjölfar síðari heimssyrjaldarinnar.  

Fréttavefur BBC segir frá því að flokkur Macron hafi verið stofnaður fyrir rétt um ári og helmingur frambjóðenda hafi litla sem enga reynslu af stjórnmálum.

Kjörsókn í síðari umferð þingkosninganna hefur verið dræm og mun minni en í kosningunum 2012. BBC segir að því hafi verið haldið fram að andstæðingar Macron hafi ekki haft fyrir því að mæta á kjörstað í annarri umferð kosninganna.

Fréttin verður uppfærð.