Stormi spáð á SA-landi

21.02.2016 - 07:15
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Framan af degi í dag verður hvöss norðanátt og snjókoma og skafrenningur um landið norðanvert. Suðaustanlands gæti slegið í storm allvíða undir Vatnajökli sem og sunnanverðum Austfjörðum. Yfirleitt þurrt og bjart veður um landið sunnanvert.

Dregur smám saman úr vindi og ofankomu á morgun, fyrst vestast. Veðrið á morgun verður nokkuð skaplegt en undanskilið er norðausturhornið, þar verður allhvöss norðvestanátt og él. Heldur kólnar í veðri, en engu að síður er farið að örla á dálítilli dægursveiflu í hitanum þegar sólar nýtur, enda hækkar hún á lofti með hverjum deginum sem líður.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV