Stóraukin framlög til varna Evrópu

03.02.2016 - 22:18
epa04125035 A US F-16 fighter jet in the Polish air space prepares to land at the 32 Tactical Air Base in Lask, central Poland, 14 March 2014. Further US Air Force F-16 fighters came to Poland for extended NATO exercises 'Aviation Detachment'
Bandarísk orrustuþota af gerðinni F-16.  Mynd: EPA  -  PAP
Ráðamenn í Austur-Evrópu fagna áformum Bandaríkjastjórnar um að styrkja varnir Atlantshafsbandalagsins í Evrópu vegna vaxandi ógnar af Rússum. Framlögin verða fjórfölduð miðað við síðasta ár.

Viðvarandi spenna hefur verið í samskiptum Rússlands og Úkraínu undanfarin misseri. Þessi ólga hefur leitt til aukins hernaðarviðbúnaðar um alla Austur-Evrópu.

Asthon Carter, landvarnaráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti á fundi í Washington í gær að á næstunni yrði enn meiri áhersla lögð á að efla viðbúnað Atlantshafsbandalagsins á svæðinu, að hans sögn til að mæta vaxandi ógn af Rússum. Í fyrra hafi Pentagon fengið 800 milljónir dala í fjárveitingu til að styrkja varnir Evrópu, nú væri gert ráð fyrir að fjórfalda framlögin þannig að á næsta ári yrðu þau 3,4 milljarðar dala, jafnvirði 436 milljarða króna.

Carter sagði að þessir fjármunir yrðu meðal annars notaðir til að auka viðveru bandarísks herliðs í Evrópu, fjölga heræfingum og senda þangað meira af hergögnum.

Ráðamenn í Austur-Evrópu hafa í dag lýst yfir mikilli ánægju með þessi áform. Hannes Hanso, varnarmálaráðherra Eistlands, sagði í viðtali við AP-fréttastofuna í dag að þau sýndu stefnubreytingu hjá bæði Bandaríkjunum og NATO. Þau væru farin að beina sjónum sínum í auknum mæli að svæðin og það með réttu.

Utanríkisráðherrar Póllands og Ungverjalands tóku í sama streng þegar þeir ræddu við blaðamenn eftir fund þeirra í Búdapest í dag. Þeir sögðu varnirnar á austari mörkum NATO-ríkjanna ónógar og aukinn viðbúnaður væri í varnartilgangi, ekki árásarskyni.

 

 

Mynd með færslu
Sveinn H. Guðmarsson
Fréttastofa RÚV