Stolið geislavirkt efni fundið í Írak

22.02.2016 - 05:20
Erlent · Asía · Írak
epa03013950 A radioactive sign is seen on a train carrying Castor nuclear waste, passes by Metz, eastern France, 24 November 2011. On the upcoming weekend, the 13th dry cask storage transport of radioactive waste from France will arrive in the Wendland,
 Mynd: EPA
Geislavirku efni sem stolið var úr birgðageymslu í írösku borginni Basra í nóvember er fundið. Lögregla í Írak staðfesti það í gær. Efnið fannst nærri bensínstöð í Zubair, skammt frá Basra.

Um tíma var óttast að hryðjuverkasamtök hafi komist yfir efnið og ætlað sér að nota það til þess að búa til svokallaða skítuga sprengju, þar sem efnið er borið á sprengjuna svo umhverfið verði geislavirkt. Vegfarandi fann efnið nærri bensínstöð í Zubair, um 15 kílómetrum frá Basra, og lét yfirvöld vita um leið. Ekki er vitað hvernig efnið komst þangað. Sérstök geislavarnarsveit lögreglunnar athugaði efnið og segja yfirvöld efnið enn vera virkt. 

Skömmu eftir að hvarf efnisins uppgötvaðist í nóvember lék grunur á að það væri í Zubair. Því var öryggi hert í borginni og telur lögregla að sá sem hafði efnið undir höndum hafi ekki þorað að fara með það úr borginni og því losað sig við það.

Efnið heitir Iridíum og getur valdið alvarlegum skaða, jafnvel dauða.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV