Stofna félagsskap um fornleifar í Stöðvarfirði

22.02.2016 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Stöðfirðingar ætla að stofna með sér formlegan félagsskap sem er ætlað að afla fjár til að kosta uppgröft á landnámsskála á Stöð í Stöðvarfirði, fyrsta landnámsbústaðnum sem staðfestur er á Austurlandi.

Stofnfundur verður haldinn í Stöðvarfjarðarskóla miðvikudaginn 2. mars klukkan 20. Lagt verður til að félagsgjöld renni til verkefnisins en einnig verður sótt um opinbera styrki. 

Þegar leggja átti ljósleiðara um Stöð í Stöðvarfirði fundust merki um rústir og var könnunarhola tekin í nóvember síðastliðnum. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur stýrði rannsókninni og aldursgreining á viðarkolum staðfesti að þar væri fundinn hluti af landnámsbæ frá 9. öld.