Stöðugleikasjóður kemur til greina

11.03.2017 - 11:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, segir vel koma til greina að stofna sjóð í útlöndum, til að byggja undir stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningardeildar Íslandsbanka, lagði það til í vikunni, að stofnaður verði sjóður í útlöndum með tekjum af ferðaþjónustunni. Þannig megi jafna sveiflur í hagkerfinu vegna mikillar aukningar ferðamanna hingað til lands. Forsætisráðherra segir að þetta sé ágæt hugmynd.

„Ég hef lengi talað fyrir því að við tækjum til hliðar væntan arð af nýtingu auðlinda. Og ég hef verið að horfa sérstaklega til orkuauðlindanna í því samhengi. Ég tek eftir því að menn sjá fyrir sér möguleika á að leggja slíkum sjóði til einhver stofnframlög og mér finnst að það geti alveg komið til greina. En ég er sem sagt búinn að skipa starfshóp sem á að skila mér tillögum um frumvarpsdrög að slíkum sjóði. Og við hyggjumst líka eiga samtal við aðra flokka á Alþingi til þess að undirbúa þetta sem best. Þessi vinna er sem sagt bara að fara af stað. En ég fagna allri umræða um það að við Íslendingar séum meira að horfa til framtíðar og byggja undir meiri stöðugleika hér í landinu,“ segir Bjarni.

Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV