Stjórnvöld semja við fórnarlömb ferðabanns

01.09.2017 - 00:57
Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritar forsetatilskipun, 24. janúar.
Donald Trump Bandaríkjaforseti.  Mynd: EPA
Fólki sem var vísað frá Bandaríkjunum vegna tilskipunar forsetans um ferðabann fyrr á árinu má sækja aftur um vegabréfsáritun. Um þetta var samið fyrir dómstólum í Bandaríkjunum í kvöld. Bandaríkjastjórn er gert að hafa samband við alla þá einstaklinga sem fengu ekki að komast inn í landið.

Donald Trump undirritaði tilskipun skömmu eftir að hann tók við embætti þess efnis að fólk frá sjö ríkjum í Mið-Austurlöndum og Afríku mætti ekki koma til Bandaríkjanna á ákveðnu tímabili. Fyrstu tilskipun hans var hnekkt í dómstólum vegna ýmissa vankanta, en einhverjum var þó vísað úr landi áður en tilskipunin tók formlega gildi. Þeim er nú frjálst að sækja aftur um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna samkvæmt sáttmálanum sem samþykktur var í kvöld. 

Samkomulagið bindur enda á málsókn tveggja írakskra manna sem voru hnepptir í varðhald á JFK flugvellinum í New York vegna tilskipunarinnar. Lee Gelernt, lögmaður bandarísku mannréttindasamtakanna ACLU, segir stjórnvöld loks hafa samþykkt að gera hið rétta í málinu og kynna þeim sem urðu fyrir barðinu á ferðabanninu réttindi sín. AFP fréttastofan hefur eftir honum að baráttunni sé þó hvergi nærri lokið, því enn eigi eftir að úrskurða í sams konar dómsmáli varðandi aðra tilskipun Trumps um ferðabann, þar sem hann fækkaði löndunum um eitt sem bannað var að koma frá auk annarra minni háttar breytinga. 

Tekið er fram í samkomulaginu að ekki sé öruggt að fólk fái vegabréfsáritun þó það sæki um, en stjórnvöld eigi að fara yfir umsókn fólksins í góðri trú.