Stjörnuhvíslið í Oymyakon

10.02.2016 - 20:36
Í Oymyakon þurfa börnin ekki að mæta í skólann ef frostið fer niður fyrir 52 gráður. Þetta er einn af þessum skemmtilegu fróðleiksmolum sem Felicity Aston og maður hennar og ferðafélagi, Gísli Jónsson, tíndu upp á 36.000 kílómetra ferðalagi sínu frá London til kaldasta byggða bóls á jörðinni. Þau eru vön fimbulkulda, enda kynntust þau á Suðurskautinu. Felicity hefur farið ótal ferðir á báða bóla og Grænlandsjökul og var fyrst kvenna til að fara einsömul á skíðum yfir Suðurskautið.

 

Þessi Síberíuleiðangur var þó nokkuð annars eðlis.  Á leiðinni tóku þau ljósmyndir, tóku upp hljóð og viðtöl við fólk sem býr á mörkum hins byggilega. Þau eltu veturinn allt frá Bretlandseyjum til Norðaustur-Síberíu og komust að ýmsu: Veturinn er sums staðar árstíð lita og samveru, kuldinn er forsenda samgangna, það er hægt að nota gulrót sem hamar og hljóðið sem heyrist þegar rakinn í andardrættinum frýs er kallað stjörnuhvísl á jakútísku.

Felicity býr í Reykjavík þegar hún er ekki í leiðöngrum eða við fyrirlestrahald. Hún kynntist Gísla Jónssyni, starfsmanni Arctic Trucks á Suðurskautslandinu árið 2010. Þau óku þar saman mörg þúsund kílómetra, og það gekk svo vel að þau hófu sambúð eftir það.  Þá lá auðvitað í augum uppi að fara saman í þessa 36.000 kílómetra Síberíuferð – reyndar með breskan kvikmyndagerðarmann í för.

Þeir sem vilja heyra stjörnuhvíslið þurfa að gera sér ferð á sýningu um leiðangurinn, sem opnar annað kvöld í húsakynnum Arctic Trucks við Klettsháls. Þar ætlar Felicity einnig að halda fyrirlestur þar sem hún segir nánar frá ferðinni. Einnig má sjá meira um bæði þann leiðangur og aðra á http://www.felicityaston.co.uk/.

 

 

 

Mynd með færslu
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós

Tengdar fréttir