Stjórnsýslulög í Póllandi tekin til skoðunar

13.01.2016 - 15:17
epa05098400 Committee for the Defence of Democracy (KOD) Leader Mateusz Kijowski (R) with KOD board member Jaroslaw Marciniak (C) speak to the media at a press conference at the Constitutional Tribunal in Warsaw, Poland, 12 January 2016. Committee for the
Leiðtogar Samtaka til varnar lýðræði í Póllandi ræða nýju stjórnsýslulögin á fundi með fréttamönnum.  Mynd: EPA  -  PAP
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar að rannsaka hvort ný lög um stjórnlagadómstólinn í Póllandi grafi undan þrískiptingu valdsins í landinu. Komi í ljós að þau brjóti gegn grunngildum ESB kunna Pólverjar að verða sviptir atkvæðisrétti í leiðtogaráði sambandsins.

Andrzej Duda, forseti Póllands, staðfesti nýju lögin skömmu fyrir áramót. Samkvæmt þeim þarf stjórnlagadómstóllinn hér eftir að samþykkja allar breytingar á stjórnarskrá landsins með tveimur þriðjuhlutum atkvæða. Áður dugði einfaldur meirihluti. Í tengslum við lagabreytinguna hafa stjórnvöld stokkað upp í dómstólnum og tryggt sér þar öruggan meirihluta.

Alvarlegar athugasemdir fyrirfram

Stjórnarandstæðingar á pólska þinginu vöruðu við lagabreytingunum sem þeir segja að grafi undan réttarkerfinu. Með þeim hafi stjórnvöld í reynd náð tökum á dómsvaldinu auk framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Evrópusambandið gerði einnig alvarlegar athugasemdir áður en lögin voru samþykkt, þar sem hugsanlegt var talið að þau ógnuðu sjálfstæði dómsvaldsins í landinu.

Framkvæmdastjórn ESB tók lagabreytingarnar til umræðu á fundi sínum í dag. Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, segir að niðurstaðan hafi verið sú að taka lögin til skoðunar. Hann sagði á fundi með fréttamönnum að ekki væri hægt að gefa sér fyrirfram til hvaða niðurstöðu athugunin leiddi. Evrópusambandið hefur heimild til að taka lagasetningar aðildarríkjanna til rannsóknar og hugsanlega beita refsingu ef sannað þykir að lögin brjóti gegn lýðræðislegum réttindum þegnanna.

Umdeild fjölmiðlalög

Ný fjölmiðlalög í Póllandi eru einnig umdeild. Með þeim hafa stjórnvöld aflað sér heimildar til að ráða og reka yfirstjórn ríkisfjölmiðlanna milliliðalaust. Áður var það á könnu stjórnar miðlanna að annast slíkt. Samkvæmt nýju lögunum hefur stjórnin verið lögð niður. Frans Timmermans gat þess ekki á fundinum með fréttamönnum í dag að framkvæmdastjórnin hygðist taka nýju fjölmiðlalögin til skoðunar.