Stjórnlagaráð vildi breytingar á forsetakjöri

08.01.2016 - 17:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnlagaráð lagði til í frumvarpi sínu til stjórnskipunarlaga árið 2011 forgangsröðun við forsetakjör, s.k. írska leið, en það eins og annað í frumvarpinu náði ekki fram að ganga. Þorkell Helgason átti sæti í stjórnlagaráði.

Hætta á að forseti verði kjörinn með litlum hluta atkvæða

Hann segir að sú staða geti hæglega komið upp í forsetakjöri samkvæmt núgildandi stjórnarskrá að forseti verði kjörinn með aðeins lítinn hluta kjósenda á bak við sig. Í 78. grein frumvarps Stjórnlagaráðs er komið í veg fyrir að sú staða geti komið upp.
„Aðaltillagan var sú að það yrði tryggt að forseti nyti stuðnings meirihluta kjósenda. Það er hægt að gera það í grundvallaratriðum með tvennum hætti. Annars vegar þannig að það yrði kosið í tvígang og þá í seinni kosningum t.d. á milli tveggja efstu manna úr þeirri fyrri. Hins vegar eins og tíðkast á Írlandi, að frambjóðendum sé raðað, þ.e.a.s. að kjósendur segi hvern þeir vilji helst fá. Og ef hann nær ekki kjöri hvert verður þá þeirra varaval.  Og hugsanlega þriðja val o.sv.frv. Í raun væri nóg að hafa aðalval og varaval. Þetta var efnislega það sem Stjórnlagaráð lagði til, en hefur því miður ekki náð fram að ganga".

Finnst þér núverandi fyrirkomulag boðlegt?  

„Nei. Eiginlega finnst mér það ekki. Það er liðinn áratugur síðan ég benti Stjórnarskrárnefnd, sem þá starfaði, á þennan vanda og lagði til þessa forgangsröðunarleið. Það hafa eflaust einhverjir gert það á undan mér. Hlutirnir ganga stundum hægt á Íslandi" segir Þorkell. Hann bendir á að í kosningum á Írlandi hafi sá frambjóðandi sem fengið hafi flest atkvæði í fyrsta sæti, með einni undantekningu, alltaf orðið í efsta sæti þegar forgangsröðunaraðferðin hafi verið notuð.