Stjórnarskrártillögur Baldurs óraunhæfar

07.01.2016 - 16:25
Samkoma í tilefni þess að Rannsóknastofa Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni tekur til starfa 07.09.09
Ljósmynd: Jóra
 Mynd: Björg Thorarensen
Björg Thorarensen stjórnlagaprófessor við Háskóla Íslands telur að hugmyndir Baldurs Guðlaugssonar lögfræðings og fyrrverandi ráðuneytisstjóra um að breyta ákvæðum í stjórnarskrá um forsetakosningar fyrir kosningarnar í sumar séu óraunhæfar.

Einar K Guðfinnsson forseti Alþingis sagði í samtali við fréttastofu að sér væri ekki kunnugt um að málið hefði verið rætt milli foystumanna stjórnmálaflokkanna. Honum sýndist hugmyndir Baldurs vera tæknilega mögulegar, en málið snerist um pólitískan vilja. Hann áttaði sig sjálfur ekki á því hvort sá vilji væri til staðar.

Ekki pólitískur vilji

Björg segir að tillögurnar standist ekki þær kröfur sem gera verði til kosningalöggjafar. Þá sé pólitískur vilji ekki til staðar. Baldur segir í Morgunblaðsgrein í dag að mögulegt sé í tíma að breyta stjórnarskránni þannig að tryggt verði að nýr forseti verði kosinn með meirihluta atkvæða.  Björg segir að tillögur Baldurs séu óraunhæfar. „Í fyrsta lagi myndi ég telja að þær stæðust ekki þær kröfur sem gerðar eru til kosningalöggjafar, að það liggi ekki fyrir hvaða kosningareglur gildi þegar undirbúningur hefst og menn skili inn framboðum. Þannig að ég held að þetta standist ekki lagalega séð." segir Björg. „En burtséð frá því þá myndi ég ætla að það sé algerlega óhugsandi pólitískt séð að menn nái samstöðu um það að gera slíkar breytingar fyrir 22. janúar."

Enginn vilji til endurskoðunar

„Það er líka ljóst að þessi ákvæði hafa blasað við mönnum í marga áratugi og hér hafa verið kosnir forsetar með minnihluta atkvæða, jafnvel þriðjungi atkvæða, þannig að það hefur aldrei verið neinn vilji til þess að endurskoða þau. Mér þætti mjög ólíklegt að samstaða næðist um það núna á nokkrum dögum."

En heldurðu að það sé vilji til einhverra breytinga?

„Nei. Allavega ekki á þeim tíma sem er framundan til þess að gera eitthvað slíkt á næstu dögum. Þar fyrir utan held ég reyndar, að í vinnu sem Stjórnarskrárnefnd hefur verið með í gangi undanfarin tvö ár sé ekki gert ráð fyrir neinum breytingum hvorki á kjöri til forseta né ákvæðum á stöðu og hlutverki forseta. Mér finnst mjög ólíklegt að það standi neitt til að breyta þessu. Það mætti þá eithvað mikið koma til, til þess að breyta skoðunum stjórnmálamanna þannig að þeir næðu samstöðu um málið."

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV