Stjórnarmyndunarviðræður í uppnámi á N-Írlandi

26.03.2017 - 21:09
Loftmynd af þingi Norður-Íra, Stormont kastala nærri Belfast
 Mynd: APTN
Stjórnarmyndunarviðræður á Norður-Írlandi virðast hafa siglt í strand. Michelle O´Neill, leiðtogi Sinn Fein á Norður-Írlandi, sagði í kvöld að ekki yrði lengra komist í viðræðunum. Friðarsamkomulag stríðandi fylkinga frá 1998, sem kennt er við föstudaginn langa þegar það var undirritað, gerir ráð fyrir að stærstu flokkar mótmælenda og kaþólikka deili völdum í stjórn Norður-Írlands.

Í kosningum 3. mars, vann Sinn Fein mikinn sigur er er nú með einu sæti minna en stærsti flokkurinn - DUO, Lýðræðislegi sambandsflokkurinn, stærsti flokkur mótmælenda.

Arlene Foster, leiðtogi DUP hefur lýst efasemdum um þá skipan að stærstu flokkar kaþóliikka og mótmælenda deili völdum. Michelle O'Neill, leiðtogi Sinn Fein á Norður-Írlandi, sagði eftir kosningarnar í mars að hún vildi ekki breytingar á ákvæðunum um samstarf trúarhópanna, en nauðsyn væri að DUP flokkurinn tæki af heilindum þátt í að deila völdum.

Óvíst er hvað nú tekur við. Breska dagblaðið Guardian segir á vef sínum að ef til vill verði boðað til nýrra kosninga. Þá kunni einnig að vera að málefni Norður-Írlands verði á ný látin falla beint undir ríkisstjórn Bretlands í London.