Stjórnarandstaðan styður ráðherrann

11.01.2016 - 21:35
epa04011024 Foreign Minister of Iceland Gunnar Bragi Sveinsson speaks during a press conference with his Finnish counterpart Erkki Tuomioja (not pictured) in Helsinki, Finland, 07 January 2014.  EPA/KIMMO BRANDT FINLAND OUT
 Mynd: EPA  -  COMPIC
Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna styðja flestir Gunnar Braga Sveinsson í afstöðu sinni til áframhaldandi viðskiptaþvingana gagnvart Rússum.

Samtök atvinnulífsins og sérstaklega Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa skorað á stjórnvöld að endurskoða viðskiptaþvinganir gegn Rússum í ljósi þeirra hagsmuna sem undir eru í íslenskum sjávarútvegi. Rússar hafa brugðist við viðskiptaþvingunum vestrænna þjóða, sem settar voru eftir að Rússar sölsuðu undir sig Krímskaga frá Úkraínu, með því að leggja innflutningsbann á matvæli, þar á meðal á makríl frá Íslandi. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hefur sagt að það komi ekki til greina að endurskoða afstöðu Íslands en nokkrir þingmenn stjórnarflokkanna hafa undanfarið tekið undir afstöðu útgerðarinnar.

Oft ósammála en „mjög sammála honum í þessu máli“

Þingmenn stjórnarandstöðunnar styðja flestir utanríkisráðherra í afstöðu sinni. Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, er einn þeirra: „Eins og við höfum oft verið ósammála utanríkisráðherra og mjög ósammála um suma hluta þá erum við mjög sammála honum í þessu máli. Grundvallar prinsipp fyrir smáþjóð sem byggir allt á stöðugleika og samkvæmni í alþjóðasamskiptum, að standa mjög sterkt með þessum sömu prinsippum um fullveldi og landamæri ríkja. Þannig að við teljum að það sé mjög mikilvægt að Íslandi haldi þessum prinsippum í utanríkisstefnu sinni fram.“ 

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, undrast afstöðu þeirra þingmanna stjórnarflokkanna sem vilja endurskoða afstöðu stjórnvalda til viðskiptaþvingana: „Það er algerlega nýtt að það sé orðin almenn stefna, innan beggja þessara flokka að það sé hægt að fleyta rjómann af í alþjóðasamskiptum. Áratugum saman var hægt að treysta á það að þessir flokkar skildu það að Ísland ætti að standa með bandalagsríkjum í grundvallarmálum og það er kannski tímanna tákn því miður en ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að það sé orðið ráðandi viðhorf í þessum tveimur flokkum að það eigi ekki að standa með öðrum lýðræðisríkjum.“

Setur fyrirvara við orð stjórnarþingmanna

Birgitta Jónsdóttir, fulltrúi Pírata í utanríkismálanefnd Alþingis, gagnrýnir líka afstöðu þeirra þingmanna stjórnarflokkanna sem vilja endurskoða þvingunaraðgerðirnar: „Ég verð bara að segja það að margir af þeim þingmönnum sem hafa tekið undir málflutning útgerðarinnar hafa þegið gríðarlega háar fjárhæðir frá þessum sömu fyrirtækjum í sínum prófkjörum. Þannig að ég verð að setja svolítinn fyrirvara við þetta allt saman. Og ég tel málflutning og rök sem hafa komið frá utanríkisráðherra vera skynsamleg, það vill bara svo til.“

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG í utanríkismálanefnd, bendir á að fulltrúar flokksins hafi varað við viðskiptaþvingunum og mögulegum afleiðingum þeirra í upphafi þessa máls. „Ég held að það hafi ekkert nýtt komið fram í málinu nú á allra síðustu dögum sem kalli á endurskoðun á þessu máli en ég held að við ættum frekar að nota þetta til þess að skoða í framtíðinni hvernig ákvarðanir eru teknar því þetta mál skiptir auðvitað gríðarlega miklu fyrir íslenska þjóðarbúið.“