Stjórnar dópgengi úr fangelsinu í Paragvæ

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Íslenskt par sem var handtekið um jólin í norðurhluta Brasilíu með fjögur kíló af kókaíni sagði við yfirheyrslur að Guðmundur Spartakus Ómarsson væri einn valdamesti eiturlyfjasmyglarinn á svæðinu. Heimildir innan brasilísku lögreglunnar segja að Íslendingur sem þar afplánar 22ja ára fangelsisdóm stundi eiturlyfjaviðskipti úr fangelsinu.

Paragvæska dagblaðið ABC Color hefur fjallað mikið um Íslendinginn Guðmund Spartakus Ómarsson sem talið var að væri horfinn og hefði ekki sést í rúm tvö ár. Blaðamaðurinn Cándido Figueredo Ruiz sem hefur fjallað um umsvif eiturlyfjastarfsemi í Paragvæ og Brasilíu í rúm 20 ár fullyrðir að Guðmundur Spartakus sé við hestaheilsu og að hann sé afar valdamikill í innsta hring eiturlyfjaviðskipta í þessum löndum. Helsta athafnasvæði hans sé í Amambay-héraði, þar sem höfuðborgin heitir Pedro Juan Caballero, og Salto del Guairá, en þessi svæði liggja að Brasilíu.

Cándido hefur upplýsingar innan brasilísku lögreglunnar um að Sverrir Þór Gunnarsson, sem afplánar 22ja ára fangelsisdóm fyrir smygl á 46 þúsundum e-töflum stundi eiturlyfjaviðskipti úr fangelsinu. Mikil spilling sé í brasilískum fangelsum og fangar með góð fjárráð geti hæglega komið sér upp góðri aðstöðu.

Guðmundur hægri hönd Sverris Þórs Gunnarssonar

„Sá sem situr í brasilísku fangelsi og á pening til að greiða fyrir, getur komið sér upp fimm stjörnu skrifstofu í fangelsinu,“ segir Candido. Hann segir að Sverrir hafi aðgang að Netinu, sé með farsíma og stundi eiturlyfjaviðskipti úr fangelsinu, og að Guðmundur sé í raun hægri hönd hans.

„Áreiðanlegir heimidarmenn okkar segja að [Sverrir Þór] sé í stöðugum samskiptum við Guðmund Spartakus, að hann sé fulltrúi hans á svæðinu á milli Paragvæ og Brasilíu.“

Cándido segir að eiturlyfjasalarnir noti aðallega ungt fólk sem burðardýr og nefnir í því sambandi ungt par frá Íslandi sem var handtekið um síðustu jól á móteli í bænum Fortaleza í norðurhluta Brasilíu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Brasilíu nefndi íslenska parið sérstaklega við yfirheyrslur að Guðmundur Spartakus væri einn af umsvifamestu eiturlyfjasmyglurunum á þessu svæði.

Mikil fátækt og spilling

Paragvæ er fátækasta ríki Suður-Ameríku og eitt það spilltasta samkvæmt upplýsingum Transparency International. Þar hefur Cándido Figueredo Ruíz starfað sem blaðamaður við dagblaðið ABC sem er eitt stærsta blað landsins í um það bil aldarfjórðung. Hann vinnur í heimabæ sínum Pedro Juan Caballero sem er við landamærin að Brasilíu, þar sem eiturlyfjasmyglarar eru afar umfangsmiklir.

Cándido og eiginkona hans hafa í rúmlega 20 ár notið verndar 7 lögreglumanna allan sólarhring. Í kringum hús hans eru 16 eftirlitsmyndavélar og hann vaknar á hverjum morgni klukkan hálf sex með lögreglumann með vélbyssu við rúmstokkinn. 

Verðlaunablaðamaður sem fær reglulega líflátshótanir

Honum hafa verið sýnd nokkur banatilræði og sjálfur segist hann fyrir löngu hafa misst töluna á þeim líflátshótunum sem honum hafi borist.

Í fyrrahaust var hann sæmdur Frelsisverðlaunum Alþjóðablaðamannasamtakanna en þau eru veitt árlega þeim blaðamönnum sem taldir eru sýna einstakt hugrekki við að verja fjölmiðlafrelsi í heiminum.

Þegar hann tók við verðlaununum í New York minntist hann sérstaklega 7 samlanda sína og blaðamenn sem hefðu verið myrtir fyrir að sinna störfum sínum.