Stjórn KÍ kærð til Sérstaks saksóknara

02.12.2015 - 19:08
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook-síða KÍ  -  Kennarahúsið
Stjórn Vísindasjóðs Félags framhaldsskólakennara og Félags skólastjórnenda hefur kært stjórn Kennarasambandsins til Sérstaks saksóknara vegna meðferðar á bókhaldsgögnum og fjárreiðum sjóðsins á meðan þjónustusvið Kennarasambandsins sá um hann. Ákvörðun um kæru var meðal annars tekin eftir að í ljós kom að á aðra milljón króna var greidd vegna veitingahúsa, áfengiskaupa og gjafa, þar sem hátt í hálf milljón króna var skuldfærð á Vísindasjóðinn.

 

Stjón Vísindsjóðsins sendi bréf til félagsmanna þar sem segir að ákvörðun um að kæra stjórn KÍ hafi verið tekin að vandlega athuguðu máli. Sú ákvörðun hafi verið tekin í apríl og kæran lögð fram í maí. Fram kemur að sérfræðingar hjá Sérstökum saksóknara hafi talið ástæðu til að taka málið til frekari rannsóknar.

Enginn samningur

 

Forsaga málsins er sú að stjórn Vísindasjóðs FF og FS óskaði eftir því í ársbyrjun 2011 að fá afhent bókhaldsgögn sjóðsins en þjónustusvið KÍ annaðist bókhald fyrir sjóðinn á þeim tíma. Þetta var gert eftir að ljóst var að enginn samningur var milli aðila um aðstöðugjald sjóðsins í KÍ-húsinu. Kennarasambandið hafi ákveðið einhliða hvert gjaldið ætti að vera og sótt það í sjóðinn án samráðs við sjóðsstjórn. Þrátt fyrir margítrekaðar óskir hafi ekki gengið að fá bókhald sjóðsins afhent og eftir margra mánaða umleitan hafi stjórn Kennarasambandsins tilkynnt að bóhaldið yrði ekki afhent, þótt lögfræðingur KÍ segði sjóðinn eiga bókhaldið.

Vaxtagreiðslum haldið eftir

Stjórn Vísindasjóðsins fór árið 2011 í viðskiptabanka sjóðsins til að skoða bankafærslur og sá þá meðal annars að iðgjöld félagsmanna, þá um níu milljónir króna á mánuði, voru reglulega tekin út af reikningnum og sett inn á reikning KÍ. Tekjur sjóðsins voru geymdar tímabundið inni á þeim reikningi og síðan millifærðar aftur í safngreiðslum án vaxta, þeir urðu eftir á reikningi KÍ.

Ríkissjóður neitaði að greiða

Innsetningarmál var höfðað á hendur KÍ árið 2013 til að fá bankaupplýsingar. Fram kemur í bréfinu til sjóðsfélaga að ríkissjóður hafi neitað að greiða iðgjöld inn á reikning KÍ því sambandið væri ekki aðili að málinu. Það hafi síðan verið staðfest með dómi að KÍ teldist ekki hafa umráð yfir eða umsjón með fjárreiðum sjóðsins.

Ósamræmi í gögnum

Það var svo í janúar 2013 að stjórn Vísindasjóðsins stefndi KÍ, þremur árum eftir að fyrst var óskað eftir afriti af samningi um aðstöðugjald fyrir sjóðinn. Lögfræðingur KÍ staðfesti í apríl á síðasta ári rétt sjóðsins til gagnanna. Þegar hluti gagnanna fékkst afhentur haustið 2013 hafi reynst mikil vinna að greina þau. Í ljós hafi komið við skoðun að ekki var samræmi milli upplýsinga á skilagreinum og skráningu í bókhaldi sjóðsins. Stjórn Vísindasjóðsins fékk því fagaðila til astoðar og staðfesti hann að tekjur sjóðsins skiluðu sér ekki að fullu.

 

Reikningar vegna veitingastaða og áfengiskaupa

Í síðasta mánuði fékk sjóðsstjórnin frumgögn úr fjárhaldsbókhaldi Kennarasambandsins þar sem voru reikningar vegna veitingahúsa, áfengiskaupa og gjafa fyrir á aðra milljón króna. Þar af voru tæplega 500 þúsund krónur skuldfærðar á Vísindasjóð FF og FS. Greitt hafi verið með kreditkorti skrifstofustjóra og því ekki hægt að sjá færslurnar á bankareikningi sjóðsins.

Ekki grunur um fjárdrátt

Guðríður Arnardóttir formaður Félags framhaldsskólakennara og stjórnarmaður í Kennarasambandi Íslands sagðist í samtali við fréttastofu ekki kvíða rannsókn Sérstaks saksóknara. Um væri að ræða áralanga deilu og gott væri að fá niðurstöðu í hana. Enginn grunur væri um að starfsmaður eða starfsmenn hefðu dregið sér fé.

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV