Stjórn Haga upplýst eftir á

18.01.2016 - 11:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn Haga hf. var upplýst eftir á að fyrrverandi starfsmaður Ölgerðarinnar, sem er til rannsóknar fyrir stórfelldan fjárdrátt, hafi verið ráðinn til starfa við nýja áfengisdeild fyrirtækisins. Salvör Nordal, stjórnarmaður og forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir stjórnina bera traust til forstjóra og hans ákvarðana.

„Stjórnin var upplýst eftir á. En ráðningar eru auðvitað almennt á höndum forstjóra og við treystum Finni [innsk; Árnasyni] fyrir því að reka fyrirtækið,“ segir Salvör. Málið hafi ekki verið rætt frekar á vettvangi stjórnar.

Umræddur starfsmaður var vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni í 13 ár. Hann var ásamt öðrum manni handtekinn í maí á síðasta ári vegna gruns um fjárdrátt. Helga Melkorka Óttarsdóttir, lögfræðingur Ölgerðarinnar, segir manninn þegar hafa greitt til baka hluta upphæðarinnar. Í því felist viðurkenning að hennar sögn en málið er enn til rannsóknar hjá lögreglu. Þá segir Helga Melkorka að fleiri mál hafi komið upp við rannsókn þess sem einnig hafi verið kærð til lögreglu.

Aðspurð hvað Salvöru þætti um ráðninguna á faglegum forsendum, sem forstöðumaður Siðfræðistofnunar, vildi hún ekki ræða málið á þeim grundvelli.

Líkt og greint hefur verið frá undirbúa Hagar nú heildsölu áfengis og eru fyrirtækið þegar með vörur í umsóknarferli hjá ÁTVR. Í samtali við fréttastofu sagði Finnur Árnason, framkvæmdarstjóri Haga, að slíkt hafi verið til skoðunar lengi. Þá styrki heildsalan stöðu Haga fari svo að frumvarp um aukið frelsi í smásölu áfengis verði samþykkt.

Hagar hf. eru stærsta smásölufyrirtæki landsins og eru stærstu hluthafar þess ýmsir lífeyrissjóðir. Hagar reka meðal annars verslanir Bónuss og Hagkaupa. Þá reka Hagar heildsölurnar Banana ehf. og Aðföng auk fjölda fatafyrirverslana svo sem Zöru, Debenhams og Topshop.