Steven Avery fær nýja lögmenn

09.01.2016 - 14:31
This image released by Netflix shows Steven Avery, right, in the Netflix original documentary series "Making A Murderer." An online petition has collected hundreds of thousands of digital signatures seeking a pardon for a pair of convicted
 Mynd: AP  -  Netflix
Gríðarmikil athygli heimildarþáttanna Making A Murderer, sem komu út á streymiveitunni Netflix rétt fyrir jól, hefur orðið til þess að lögmannsstofa í Chicago hefur boðist til að hjálpa Steven Avery að hreinsa mannorð sitt.

Þættirnir hafa fengið fádæma viðbrögð og enn á ný vakið upp áleitnar spurningar um bandaríska réttarvörslukerfið. Þar er í tíu klukkustundarlöngum heimildarþáttum fjallað um Steven Avery, sem var sleppt úr fangelsi í Wisconsin árið 2003, eftir að sannaðist með DNA-prófi að hann hafði verið ranglega dæmdur fyrir nauðgun. Avery hafði þá afplánað 18 ár af dómnum.

Rúmlega tveimur árum síðar var hann ákærður á ný og síðar dæmdur fyrir að myrða ljósmyndarann Teresu Halbach, en hann heldur því fram að lögreglan hafi í því máli komið sök á hann með fölsuðum sönnunargögnum. Á þeim átta árum sem liðin eru síðan hann var dæmdur í seinna skiptið hefur bæði áfrýjunardómstóll og Hæstiréttur Wisconsin hafnað beiðnum hans um ný réttarhöld. Eftir synjun Hæstaréttar missti hann rétt á verjanda á vegum ríkisins og hefur ekki haft efni á að ráða sér verjanda.

Eftir að þættirnir komu út hafa safnast hundruð þúsunda undirskrifta á netinu þar sem biðlað er til Obama Bandaríkjaforseta að náða Avery. Svar barst frá Hvíta húsinu í gær þess efnis að forsetinn gæti ekki náðað hann þar sem morðið teldist ekki alríkisglæpur. Það væri aðeins á færi yfirvalda í Wisconsin að náða Avery.

Lögregluyfirvöld hafa gagnrýnt þættina, og umdeildur saksóknari málsins segir í viðtali við New York Times að kvikmyndagerðarmennirnir hafi sleppt því að fjalla um mikilvæg sönnunargögn sem hafi leitt til þess að Avery var sakfelldur.

Systursonur Averys, sem dæmdur var fyrir hlutdeild í morðinu, bíður niðurstöðu alríkisdómstóls í sínum hluta málsins. Í gærkvöld bárust loks fréttir af því að lögmannsstofa í Chicago hefði boðist til að taka mál Averys upp á sína arma. Lögmennirnir ætla að vinna með Triciu Bushnell, yfirlögfræðingi samtakanna Midwest Innocence Project, að því að reyna að fá niðurstöðu dómstóla hnekkt.

Netflix birti fyrsta þátt heimildarþáttaraðarinnar í heild á YouTube.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV