Stefnumót við tónskáld: Jóhann Jóhannsson

Jóhann Jóhannsson
 · 
Stefnumót við tónskáld
 · 
Menningarefni

Stefnumót við tónskáld: Jóhann Jóhannsson

Jóhann Jóhannsson
 · 
Stefnumót við tónskáld
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
09.01.2016 - 11:42.Halla Oddný Magnúsdóttir.Stefnumót við tónskáld
Jóhann Jóhannsson hefur verið á mikilli sigurgöngu í heimi kvikmyndatónlistar síðustu ár. Hann hefur nýhlotið sína aðra tilnefningu til Óskarsverðlaunanna, fyrir tónlistina sem hann samdi fyrir kvikmyndina Sicario eftir Denis Villeneuve. Nýlega bárust fréttir af því að sú tónlist væri líka tilnefnd til BAFTA-verðlauna.

Fyrri Óskarstilnefning Jóhanns var fyrir kvikmynd James Marsh, The Theory of Everything í fyrra, en sama ár hlaut Jóhann Golden Globe-verðlaunin fyrir hana. En tónsmíðar Jóhanns einskorðast síst við kvikmyndatónlist.

Í þessum þætti eigum við stefnumót við listamanninn og verk hans á vinnustofu hans í Berlín. Þar fræðumst við meðal annars um verkefnin framundan, aðferðir hans og sýn á kvikmyndatónlistina, en ekki síður hinar sjálfstæðu tónsmíðar hans.

Þær tónsmíðar eiga sér alla jafna bakland í heimi hugmyndanna og vísa í sögu, bókmenntir eða heimspeki. Þar koma fyrir syngjandi IBM-tölvur, hægferðugar skrúðgöngur, útópískir iðnaðardraumar í Amazon-frumskóginum og nú síðast mörgæsirnar á Suðurskautslandinu. Víða má greina þemu á borð við samband manns og vélar annars vegar, og manns og náttúru hins vegar. List Jóhanns þrífst á skapandi samslætti listformanna, eins og glöggt má heyra í frásögn hans. 

Í þættinum segir Jóhann frá tónlistarlegum áhrifavöldum sínum og mótunarárum. Þar koma fyrir ólíkir þættir – Lúðrasveitin Svanurinn, hljóðgerflahetjan Jean Michel Jarre, nýbylgjusveitin Jesus and Mary Chain og margt, margt fleira.

Jóhann á að baki fjölbreyttan feril í ýmsum hljómsveitum (sem raunar eru fleiri en svo að hægt sé að gera þeim skil í þessum þætti). Hann hefur samið tónlist fyrir leikhús, bíó- og heimildarmyndir frá mörgum löndum og staðið fyrir tilraunakenndum listviðburðum af ýmsum toga. Við heyrum því líka í tveimur samstarfsmönnum hans úr tónlistinni – þeim Matthíasi Hemstock og Úlfi Eldjárn, sem lýsa manninum og verkum hans.