Stefnumót við tónskáld: Daníel Bjarnason

16.01.2016 - 17:19
Mynd með færslu
 Mynd: Samantha West  -  Daníel Bjarnason
Daníel Bjarnason er bæði tónskáld og hljómsveitarstjóri og sver sig þannig í ætt við gömlu meistarana – en margir telja það hafa verið mikið óheillaskref í sögu vestrænnar tónlistar þegar tónskáld hættu að vera undantekningalítið flytjendur eigin verka. Daníel hefur notið mikillar velgengni síðustu ár víða um heiminn, ekki síst vestanhafs, þar sem sumar af virtustu hljómsveitum Bandaríkjanna halda merkjum hans á lofti.

Þrátt fyrir að eiga í skapandi og meðvituðu samtali við tónlistarsöguna er Daníel nútímatónskáld í besta skilningi þess orðs, verk hans búa yfir frumleika og krafti og tala óvenjusterkt til áheyrenda úr öllum áttum.

Síðustu ár hafa verið viðburðarík hjá Daníel, en nú um stundir vinnur hann meðal annars að óperu eftir kvikmynd Susanne Bier, Bræður, sem til stendur að sýna 2017 í Árósum, sem þá verður menningarborg Evrópu. Auk þess er hann að skrifa fiðlukonsert fyrir Los Angeles-fílharmóníuna og finnska fiðluleikarann Pekka Kuusisto.

Í þessum þætti heyrum við hugleiðingar Daníels um hljóðheima og -geima, fræðumst um verkefnin framundan og kynnumst leið hans inn í tónlistina. Þrátt fyrir mikla og velgengni á sviði tónlistar mátti minnstu muna að líf Daníels leiddist inn á allt aðrar brautir – hann var liðtækur knattspyrnumaður og eftirsóttur hjá fleiri en einu (!) unglingalandsliði – en sneri snögglega baki við íþróttinni og settist við píanóið eftir nokkurra ára hlé. 

Daníel er tónlistarmaður sem virðir að vettugi gamlar og úr sér gengnar skilgreiningar á hvað teljist klassísk tónlist. Hann hefur starfað með tónlistarmönnum úr ýmsum áttum og átt náið samstarf við plötuútgáfuna Bedroom Community, þar sem hann hefur gefið út tvær hljómplötur, Processions 2010 og Over Light Earth 2013. Auk tónsmíða og hljómsveitarstjórnar hefur Daníel meðal annars útsett tónlist fyrir Sigurrós og samið tónlist fyrir kvikmyndir, svo eitthvað sé nefnt. Hann gegnir stöðu staðarlistamanns hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og kemur reglulega fram með henni og leiðbeinir ungum tónskáldum á hennar vegum.

Daníel var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2010 og hefur tvisvar unnið Íslensku tónlistarverðlaunin sem besta tónskáld 2013 og 2015, auk þess sem fyrsta hljómplatan með verkum hans, Processions frá 2010 hlaut verðlaunin sem besta hljómplata. Tónskáldaþingið Rostrum hefur veitt honum viðurkenningar fyrir verk sín 2008 og 2011.

Mynd með færslu
Halla Oddný Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Stefnumót við tónskáld