Stefnubreyting í heilsugæslunni

27.02.2016 - 18:52
Birgir Jakobsson landlæknir.
 Mynd: RÚV
Birgir Jakobsson, landlæknir segir að of mikil athygli hafi beinst að rekstrarform í heilsugæslunni en ekki þeirri stefnubreytingu sem boðuð var í vikunni. Hún geti komið af stað nauðsynlegri hugarfarsbreytingu í heilbrigðiskerfinu.

Heilbrigðisráðherra kynnti í vikunni breytingar á heilsugæslunni. Heilsugæslustöðvum verður fjölgað á höfuðborgarsvæðinu og stefnt er að því að bjóða út rekstur þriggja nýrra stöðva í næsta mánuði.  BSRB sendi frá sér ályktun þar sem einkavæðingu heilsugæslunnar var hafnað og henni var einnig mótmælt á Alþingi þar sem formaður velferðarnefndar benti á að Heilsugæslan hafi verið fjársvelt en nú væri fjármagn sett í einkarekstur.   Landlæknir fagnar breytingunum. 

„Hins vegar hefur mér fundist of mikil athygli beinast að rekstrarforminu. Frá mínum bæjardyrum séð þá er hér um að ræða ákveðna stefnubreytingu.“

Sömu kröfur verði gerðar um aðgengi, gæði og öryggi sjúklinga á öllum heilsugæslustöðvum hvort sem þær eru í einka- eða opinberum rekstri. Greiðsluformið verður samræmt óháð rekstrarformi stöðvanna og greiðslurnar tengdar við gæði þjónustunnar.  

Tvö kerfi hafa verið við lýði í áratugi sem eru fjármögnuð á gjörólíkan hátt. Opinbera kerfið í gegnum fjárlög og einkakerfið í gegnum samning við Sjúkratryggingar íslands. 

„Það er augljóst mál að þegar hefur dregið úr fjárveitingum þá hefur það komið verr niður á opinbera kerfinu heldur en hinu. Hér er verið að koma í veg fyrir slíkt, það er verið að skapa sömu skilyrði fyrir reksturinn óháð hver rekur.“

Nýja kerfið er að sænskri fyrirmynd og það hefur verið gagnrýnt meðal annars fyrir það að aðgengi fólks að einkareknum stöðvum sé ekki jafnt. 

„Það hefur reynst vil ég nú samt meina vel erlendis það er ekki þar með sagt að það sé fullkomna lausnin.“

„Það þarf því að huga að aðgengi að heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og ég er að tala um raunverulega allt landið sé eins jafnt og það getur mögulega orðið.“

„Að mínu mati er hér um að ræða grundvallarbreytingu sem getur komið af stað hugarfarsbreytingu í heilbrigðiskerfinu og það er nauðsynlegt að sú breyting eigi sér stað.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV