Stefnt að langtímasamningi um Hugarafl

17.08.2017 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Velferðarráðuneytið
Stefnt er að gerð langtímasamnings um aukin framlög til Hugarafls til að styrkja starf samtakanna í þágu fólks með geðraskanir. Þetta var niðurstaða fundar sem Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra og forsvarsmenn Hugarafls áttu í morgun, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Þar kemur fram að ráðherra hafi lýsti vilja sínum til að efla starf Hugarafls, einkum virkni og endurhæfingarúrræði samtakanna sem hafa reynst vel fjölda fólks sem glímt hefur við geðraskanir af ýmsum toga. Haft er eftir Þorsteini að mikilvægt sé starfsemin nái að þróast áfram og eflast og samhljómur sé um að það takist best með vönduðum langtímasamningi um starfsemina þar sem fjallað sé um markmið og árangursmælingar.

Auður Axelsdóttir, einn stofnenda Hugarafls, sagðist á fundinum ánægð með þá stefnu sem málefni Hugarafls hafi tekið. Gerð langtímasamning sé æskileg niðurstaða og hún treysti því einnig að farsæl lausn náist fljótt sem tryggi starfsemi samtakanna á næstu mánuðum.

Óvissa hefur ríkt um starfsemi Hugarafls eftir að opinberir styrkir til samtakanna lækkuðu verulega, og var talin hætta á að starfsemin legðist af. Nú er haft eftir Auði að hún treysti því að farsæl lausn náist fljótt sem tryggi starfsemi samtakanna.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV