Stefnt að kosningum í austurhluta Úkraínu

04.03.2016 - 01:37
epa05193060 (L-R) Russian Foreign Affairs Minister Sergei Lavrov, Ukrainian Foreign Affairs Minister Pavlo Klimkine, French Foreign Affairs Minister Jean-Marc Ayrault and German Foreign Affairs Minister Frank-Walter Steinmeier pose for the photographers
Frá vinstri: Sergei Lavrov, Pavlo Klimkine, Jean-Marc Ayrault og Franz-Walter Steinmeier.  Mynd: EPA
Kjörfundur verður í austurhluta Úkraínu í lok júlí. Það fékkst samþykkt á fundi utanríkisráðherra Úkraínu, Rússlands, Þýskalands og Frakklands í kvöld, að sögn Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands. Starfsbræður hans frá Þýskalandi og Úkraínu segja málið ekki komið svo langt og eru óánægðir með hæga þróun viðræðna.

AFP fréttastofan hefur eftir Ayrault að lögð hafi verið áhersla á mikilvægi þess að hægt verði að kjósa í landshlutanum um miðbik ársins. Pavla Klimkin, utanríkisráðherra Úkraínu, segir hins vegar að það sé nauðsynlegt að fyllsta öryggis verði gætt áður en hægt verði að kjósa. Átökum verði að linna á svæðinu áður.  Hann segir Rússa fela fjölda hergagna í austurhluta Úkraínu og kvartar undan aðgangi að landamærunum. Stjórnvöld í Úkraínu óskuðu eftir því að ná aftur stjórn á landamærunum til þess að stöðva hergagnaflutninga yfir landamærin frá Rússlandi. Rússar vildu ekki ræða það að sögn Klinkins.

Frank-Walter Steinmeyer, starfsbróðir þeirra frá Þýskalandi, er óánægður með framgöngu stjórnvalda í Kíev og Moskvu í viðræðunum. Hann segir þau þurfa að vinna saman á uppbyggjandi hátt. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ræddi ekki við fréttamenn að loknum fundi.

Fundurinn var hluti samkomulags sem undirritað var í febrúar í fyrra og er kennt við Minsk. Frakkar og Þjóðverjar voru milliliðir og sat Vladimir Pútin, forseti Rússlands, fundinn í Minsk. Í samkomulaginu var krafist vopnahlés auk pólitískra, efnahagslegra og félagslegra umbóta svo hægt væri að binda enda á átökin í austurhluta Úkraínu. Frá því átök hófust í landshlutanum í ársbyrjun 2014 hafa um 9.000 fallið. Heldur hefur verið minna um ofbeldi undanfarið. Lítið fer hins vegar fyrir öðrum umbótum sem samið var um í Minsk.