Stefnir í verkfall tæknimanna hjá RÚV

25.03.2015 - 12:37
Mynd með færslu
Tæknimenn á RÚV í Rafiðnaðarsambandinu fara í verkfall í þriðjudag ef af verður  Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir  -  RÚV
Verkfall rúmlega 50 tæknimanna hjá Ríkisútvarpinu hefst að óbreyttu í fyrramálið. Formaður Rafiðnaðarsambandsins segir að til greina komi að veita undanþágu til að senda út fréttir í útvarpi.

Tæknimenn hjá RÚV í Rafiðnaðarsambandi Íslands hefja að óbreyttu fyrstu fjögurra daga verkfallslotu sína klukkan sex í fyrramálið. Rafiðnaðarsambandið krefst þess að Samtök atvinnulífsins, sem hafa samningsumboðið fyrir hönd RÚV, geri sérkjarasamning við tæknimennina. Því hefur SA neitað og kærði verkfallsboðunina til Félagsdóms og gæti niðurstaðan legið fyrir síðdegis. Samningafundur hefur verið boðaður klukkan tvö hjá Ríkissáttasemjara. Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir að jafnvel þótt Samtök atvinnulífsins neiti að gera sérkjarasamning, geti RÚV afturkallað samningsumboðið og gert slíkan samning.

„Við fengum í gær undanþágubeiðnir frá RÚV og það er verið að fara yfir þær núna og ekki búið að tak afstöðu til þeirra en það getur alveg farið svo að það verði veittar undanþágur til að heimila einhverja dagskrárliði, nauðsynlegustu.“

Aðspurður segir hann það eftir að taka endanlega ákvörðun um undanþágur. „Gæti farið svo að það verði heimilað einhverjar fréttir í útvarpi, en það á eftir að koma alfarið í ljós,“ segir Kristján Þórður. 

Geti ekki gert samning á skjön við SA

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri segir RÚV, geti ekki gripið inn í eitt og sér og gert samning á skjön við SA. Hann segir að róið verði að því öllum árum að leysa deiluna svo ekki komi til verkfalls. „Það blasir við alveg við að ef til verkfalls kemur þá er þetta stóralvarlegt mál að útsendingar Ríkisútvarpsins raskist með þessum hætti, hins vegar þá verður hér fréttavakt allan sólarhringinn og þeim verður miðlað eftir öllum mögulegum leiðum.“

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV