Starfsnám mikilvægt en skoða lögmæti þess

12.02.2016 - 16:46
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Forseti lagadeildar Háskóla Íslands segir að fundað verði í næstu viku vegna þeirrar gagnrýni sem Bandalag háskólamanna hefur sett fram á ólaunað starfsnám. Bæði hafi tíðkast að starfsnám sé launað og ólaunað en það sé mikilvægur hluti námsins. Lögfræðingur BHM sendi WOW air bréf vegna auglýsingar um ólaunað starf og telur það brot á lögum.

„Við ætlum að funda um þetta í næstu viku,“ segir Eyvindur G. Gunnarsson deildarforseti. Hann segir deildina ekki hafa aðra opinbera skoðun á málinu en að vilja fara að lögum. „Ef einhver telur að lög séu brotin þá skoðum við það að sjálfsögðu,“ segir Eyvindur.

Erna Guðmundsdóttir, lögfræðingur BHM, sendi bréf til WOW þar sem þess er krafist að WOW greiði lágmarkslaun fyrir starf sem felur í sér 160 vinnustundir á 4-8 vikna tímabili. Erna segir að lögum samkvæmt eigi að greiða fyrir starfið þar sem það sé mat BHM að ekki sé um starfsnám að ræða heldur starf sem greiða beri lágmarkslaun fyrir.

„Við höfum verið með starfsnám sem þetta árum saman. Stundum er greitt fyrir það og stundum ekki. Starfsnámið þarf að vera samþykkt af skólanum en þetta hefur verið mikilvægur þáttur af náminu. Við munum fara yfir þetta í næstu viku,“ segir Eyvindur.

WOW sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem sagt er að reglum Háskólanna sé fylgt. Sá sem sinni starfinu fái allt að 6 ECTS-einingar fyrir vinnuna.