Starfsmenn United Silicon segja öryggi ógnað

19.04.2017 - 15:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Allmargir starfsmenn United Silicon hafa leitað til síns verkalýðsfélags og lýst áhyggjum af öryggismálum. Dæmi eru um að menn séu látnir vinna með vélar sem þeir hafi ekki réttindi til og að menn hafi einungis rykgrímur nálægt mengandi efnum. Þá hafi menn áhyggjur af því að vinna á svonefndum aftöppunarpalli þar sem stutt sé í rafleiðara.

Aðfaranótt þriðjudags kviknaði eldur í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Umhverfisstofnun hefur tilkynnt forráðamönnum verksmiðjunnar um áform sín um að stöðva starfsemina þar til ákveðnar úrbætur hafa verið gerðar.

Flestir almennir starfsmenn United Silicon eru í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis. Kristján Gunnarsson er formaður félagsins. „Þeir hafa í töluvert miklu mæli leitað til okkar. Mestu áhyggjur manna sem við okkur hafa talað, hafa verið út af öryggismálum. Þeir hafa haft miklar áhyggjur af því,“ segir Kristján. 

Kristján segist ekki hafa fengið leyfi til að skoða vinnuaðstæðurnar. Hann hafi hvatt menn til að hafa samband við Vinnueftirlitið, sem hafi fullvissað hann um að þessi mál væru tekin föstum tökum. Kristján segir að starfsmenn hafi byrjað að kvarta undan öryggismálum og þar með mengun. Brýnt sé að menn hafi almennilegan hlífðarbúnað og grímur, aðrar en rykgrímur. „Auðvitað hafa menn verið með frekar litlar varnir sé ég bara á þeim myndböndum sem ég hef séð þar sem hefur verið mjög mikil mengun í gangi,“ segir Kristján. 

Kristján segir að kvartað hafi verið undan því að fallvarnir, þegar unnið er í mikilli hæð, væru ekki sem skyldi. Einnig hafi verið kvartað undan neyðaraðstöðu, þar sem veita á fyrstu hjálp komi upp alvarleg slys. Margir hafi kvartað undan svonefndum aftöppunarpalli. „Og svo voru menn að kvarta yfir því að það var verið að skikka þá til að vinna á tækjum sem menn höfðu ekki réttindi til að vinna á. - Og hverju kvörtuðu menn undan á aftöppunarpallinum? Menn voru óöruggir. Mönnum fannst stutt upp í rafleiðara og menn töldu lífi sínu ógnað þar,“ segir Kristján.