Starfsmenn garðsins sögðu ósatt í yfirheyrslum

28.01.2016 - 17:47
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós
7. júlí 2014 varð hrikalegt slys í skemmtigarðinum Terra Mítica, skammt frá Benidorm. Átján ára íslenskur piltur, Andri Freyr Sveinsson, losnaði úr rússibana á fullri ferð og lést af áverkunum sem hann hlaut við fallið. Fjölskyldan hefur síðan staðið í málarekstri við skemmtigarðinn, enda telur faðir Andra að upplýsingar sem fram komu við rannsóknina hafi breytt slysinu í manndráp af gáleysi. Margt hafi verið athugavert við öryggismál í garðinum og starfsmenn hans hafi sagt ósatt í yfirheyrslum.

Sveinn, faðir Andra og Hulda kona hans, höfðu safnað fyrir Spánarferðinni í sjö ár. Þau flugu út í júlí árið 2014. Þau tóku öll börnin sín sex með og vin þeirra, svo þau voru alls níu saman. 

Eitt af því sem krakkarnir hlökkuðu hvað mest til var dagur í skemmtigarðinum Terra Mítica. Sveinn hefur aldrei verið hrifinn af svona tækjum, svo hann var með elsta syni sínum og yngstu börnunum tveim í barnatækjunum á meðan Hulda fór með hinum krökkunum í stóru rússíbanana.

„Ég fór ásamt Andra og Daníel og Hilmi og Aldísi í Inferno. Svo bara raðaðist það þannig að Hilmir og Andri sátu saman og Aldís sat með bakið í þá. Þannig að við Daníel urðum að bíða eftir næstu ferð. Við fylgjumst með þar sem þau setjast í tækið, maðurinn kemur og spennir þau og svo fer tækið af stað. Svo þegar kemur að síðustu veltunni þá er okkur Daníel vísað í sæti. Næsta sem við vitum er að röðin grípur fyrir munn sér, öskrar og hleypur í burtu. Við sjáum skugga og heyrum hljóð. Við vorum ekki alveg viss hvað hefði gerst, en við sem sagt lítum hvort á annað til að fá fullvissu á hvort við hefðum séð þetta bæði. Eða hvort þetta hefði bara verið eitthvert rugl í okkur. Í því opnast grindin og við stökkvum bæði úr tækinu og þá sé ég að Andri liggur á grúfu. Ég sé að rússibaninn stoppaði ekki alveg á þeim stað sem hann átti að vera. Ég kalla til hans og ég sé að hann hreyfir sig örlítið og umlar. Ég bið Daníel að hlaupa eftir Denna.“

 

Faðir Andra hljóp eins og fætur toguðu á slysstað, en tilviljun réði því að norskur læknir var einmitt staddur þar þegar slysið varð. Hann gat veitt fyrstu hjálp og þeir hjálpuðust að við að halda Andra niðri. Engin neyðaráætlun fer í gang í garðinum, þar er ekki sjúkrabíll til reiðu, svo biðin eftir honum reyndist 20-25 mínútur.

„Þarna hlaupa um starfsmenn garðsins, meira og minna ráðvilltir, leitandi að einhverju. Það er komið með svona lítinn sjúkrakassa, sem opnast svona tvöfaldur, með einhverjum teygjubindum og plástrum.“

Eftir að sjúkrabíllinn kom loks á staðinn og það tókst að lyfta Andra á sjúkrabörum yfir tveggja metra háan vegg, því bíllinn komst ekki að slysstað, tók við bið. 45 mínútum seinna var fjölskyldan kölluð saman, látin setjast á plaststóla í hálfhring, og tilkynnt að Andri væri látinn. Sveinn segir margt í móðu eftir það.

„Við keyrðum rúma hundrað kílómetra með restina af börnunum í bílunum. Á sitt hvorum bílnum. Ég talaði víst tvisvar í símann á leiðinni. Ég man ekkert eftir því. Þannig að það er vítavert að okkur hafi verið hleypt út í umferðina, á hraðbrautina...Þarna vantaði einhverja stjórn til þess að taka þetta vald af okkur.“ 

Samskipti fjölskyldunnar við Terra Mítica hafa engin verið frá 7. júlí 2014. Hulda segir þá hafa lofað að gera allt fyrir þau sem hugsast gæti, en það hafi aldrei heyrst bofs. Málið varð strax áberandi í spænskum fjölmiðlum. Sveinn segir margt furðulegt hafa fylgt því. 

„Borgarstjórinn í Benidorm tjáði sig mikið, bæði á Facebook og twitter um það að hann væri fjölskyldunni innan handar. Ég hef aldrei séð þennan mann. Veit ekki einu sinni hvað hann heitir.“

 

Sveinn telur orök slyssins vera bilun í festingu á járngrind sem átti að halda Andra föstum. Hann hafi verið þyngri en hámarksþyngd frá framleiðanda sagði til um, en starfsfólk hafi ekki vitað það og engar slíkar merkingar verið við tækið. Hann efast einnig um að þyngd Andra sé eina ástæða þess að svona fór. Mörgu hafi verið ábótavant í öryggismálum garðsins. Starfsmenn hafi haldið því fram við yfirheyrslu sólarhring eftir slysið, að grindin hafi verið lokuð. 

„Ég hef séð myndir af mun stærri manneskjum en honum fara í tækið. Þannig að ég held að skýringin ein og sér sé ekki ásættanleg, að hann hafi verið of stór í það. Enda opnaðist grindin og ég á myndir af slysstað þar sem sést að grindin er opin, þrátt fyrir að starfsmenn hafi sagt að hún hafi verið lokuð allan tímann...Það stemmir ekkert af því sem þeir segja, ekkert.“

 

 

Einn vagn í Inferno, eining fyrir átta manns, var alltaf látin ganga tóm þennan dag. Engin skýring hefur fengist á því, en í gögnum málsins má sjá að kona hafði látið gera neyðarstopp á tækinu tuttugu mínútum áður en Andri fór í sína örlagaríku ferð. Tveim dögum áður hafði þurft að opna grindurnar í tækinu sérstaklega, því önnur kona sat þar föst. Það eru því margar spurningar sem er ósvarað, að mati Sveins.

„Ekkert af okkur í fjölskyldunni fer í svona garða framar. En fyrir þá sem ætla sér í þessa garða: spyrjið um þyngdina, spyrjið um alla hluti. Reynið að vita sem mest um tækið. Ég fór hérna á Ljósanótt í Keflavík og þar var tívolí frá Englandi. Þau vissu ekkert um svona einu sinni. Í Húsdýragarðinum er fallturn. Þar er hvergi hámarksþyngd. Það er hámarksþyngd frá framleiðanda.“

 

Viðtalið við þau Svein og Huldu má sjá í heild sinni hér.

Mynd með færslu
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós