Stakk félaga sinn í bakið vegna ágreinings

06.03.2016 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Karlmaður var stunginn í bakið í vesturbæ Reykjavíkur um klukkan eitt í nótt. Hann gekkst undir aðgerð á Landspítalanum í nótt og er líðan hans stöðug. Árásarmaðurinn er í haldi lögreglu.

Mennirnir tveir eru félagar og báðir fæddir árið 1989 samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Svo virðist sem einhver ágreiningur hafi komið upp á milli þeirra sem endaði með því að annar tók upp hníf og stakk hinn í bakið. Árásin átti sér stað utandyra, á Sæmundargötu, við stúdentagarðana.

Sá sem fyrir árásinni varð var fluttur á Landspítalann þar sem hann gekkst strax undir aðgerð. Hann er með alvarlega áverka og er haldið sofandi.

Árásarmaðurinn var handtekinn á staðnum og færður í fangaklefa. Hann hefur ekki verið yfirheyrður. Líklega verður farið fram á gæsluvarðhald yfir manninum síðar í dag en ákvörðun um það verður tekin síðar í dag eða eftir að yfirheyrslum er lokið.