Stærsta kóralrif við Japan dautt

12.01.2017 - 10:10
Mynd með færslu
Frá kóralrifinu mikla við Ástralíu.  Mynd: EPA  -  AUSTRALIAN INSTITUTE OF MARINE S
Könnun japanska umhverfisráðuneytisins sýnir að stærsta kóralrif Japans hefur drepist í vetur. Kóralrifið er undan strönd Okinawa og heitir Sekiseishoko.

Um 70 af hundraði allra kóralla á rifinu hafa drepist að talið er vegna hækkandi hitastigs í sjónum en sjávarhiti mældist 1-2 gráðum hærri í fyrra sumar, en undir venjulegum kringumstæðum.

Vísindamenn segja að þegar sjávarhitinn hækki deyi þeir þörungar sem lifi í sambýli við kórallanna. Þeir blikni þá, tapi fögrum litum sínum og deyi.

Sekiseishoko er eitt stærsta kóralrif á norðurhveli jarðar. Vísindamenn spá því nú að ef svo haldi fram sem horfi um hitnun sjávar vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum þá sé hætt á að 99 prósent allra kóralrifja heimsins deyi fyrir lok þessarar aldar. 

Stærsta kóralrif í heimi er undan austurströnd Ástralíu og telst það eitt magnaðasta og tegundaauðugasta vistkerfi jarðar. Fram kemur á Vísindavefnum að kóralrif finnist á svæðinu milli 30°norðlægrar breiddar og 30°suðlægrar breiddar í Indlandshafi, innhöfum þess, Kyrrahafi, Karíbahafi og vestanverðu Atlantshafi. 

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV