Staðfest að 63 eru látnir

18.06.2017 - 12:43
epa06034511 A unidentified local resident, surrounded by sparks, watches his  house burning in fire in Figueira, near Pedrogao Grande, Leiria District, Center of Portugal, 17 June 2017.  About 180 firemen, 52 land vehicles and 2 planes are fighting to
 Mynd: EPA  -  LUSA
Sextíu og tveir eru látnir eftir mannskæða skógarelda sem nú geysa um miðbik Portúgal. Óttast er að enn fleiri hafi sakað þar sem yfirvöld hafa enn ekki náð sambandi við öll þau svæði þar sem eldarnir geysa. Forsætisráðherra landsins segir þetta einn mesta harmleik sem þjóðin hafi upplifað í áraraðir.

 

Hátt í 600 slökkviliðsmenn berjast nú við gríðarmikla skógarelda sem geisa um miðbik Portúgal.

Fregnir af fjölda látinna hafa breyst hratt í allan morgun. Yfirvöld staðfestu snemma í morgun að nítján væru látnir en nú rétt fyrir hádegið var talið víst að hið minnsta 62 séu látnir og fjölmargir sárir.

Flestir hinna látnu létust í bílum sínum á flótta undan eldhafinu. Þá er tveggja slökkviliðsmanna saknað eftir nóttina. Yfirvöld hafa ekki náð sambandi við öll svæðin þar sem skógareldarnir geysa og því er óttast að enn fleiri hafi sakað.

Skógareldar eru ekki óþekktir í Portúgal en forsætisráðherra landsins, Antonio Costa, segir eldana nú einn mesta harmleik sem þjóðin hafi upplifað í áraraðir. 

Hitabylgja hefur gengið yfir Portúgal undanfarið og hefur hitinn víða farið yfir 40 gráður.

Á fréttavef breska ríkisútvarpsins er greint frá því að eldar hafi kviknað á 60 stöðum, víðsvegar um landið í nótt. Mögulegt er að þrumuveður sé orsök eldanna. Verst er ástandið inni í miðju landi, á svæði sem nefnist Pedrógão Grande.

Spánverjar og Frakkar hafa heitið nágrannalandi sínu liðveislu í slökkvistarfinu og einnig er aðstoðar að vænta frá Evrópusambandinu, bæði til slökkvi- og björgunarstarfa.

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV