Staðan í Melaskóla litin alvarlegum augum

18.01.2016 - 13:49
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Það væri mjög alvarleg staða færi svo að tugir kennara í Melaskóla segðu upp störfum segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Unnið sé að því að tryggja farsælt skólastarf. Allt að 30 kennarar hafa hótað að segja upp starfi sínu snúi skólastjóri, sem nú er í leyfi, aftur til starfa.

„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum,“ segir Helgi. „Það væri mjög alvarlegt ef sú staða kæmi upp,“ færi svo að til fjöldauppsagna kæmi. „Við vinnum að því að tryggja farsælt skólastarf. Eins og staðan er núna er skólastjórinn í leyfi og reyndur maður, Ellert Borgar Þorvaldsson, sinnir starfinu.“

Í ályktun sem bekkjafulltrúaráð Melaskóla samþykkti einróma 14.janúar kemur fram að staðan sé álitin grafalvarleg. Málið snýst um ósætti stórs hóps kennara við störf Dagnýjar Annasdóttur, skólastjóra.

Ályktun ráðsins má lesa í heild sinni hér að neðan.

„Ályktun bekkjafulltrúa Melaskóla, 14.janúar 2016

Á fundi bekkjafulltrúaráðs Melaskóla, sem haldinn var 14,janúar 2016, var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Fundurinn lýsir þungum áhyggjum af þeirri alvarlegu stöðu sem við blasir að fyrir hendi er innan skólans vegna viðvarandi stjórnunarvanda sem skólinn glímir við. Verðferð og þarfir barna í skólanum og gildi Melaskóla hafa fallið í skuggann af ágreiningi skólastjóra og kennara. Engar lausnir eru í sjónmáli heldur blasa við uppsagnir í hópi kennara og í raun atgervisflótti ef og þegar núverandi skólastjóri kemur aftur til starfa úr því leyfi sem hún hefur verið í undanfarnar vikur.

Fundurinn mótmælir því harðlega að skólastarfi Melaskóla sé ógnað á þennan hátt og krefst þess að skóla og frístundasvið Reykjavíkur skeri án tafar á þann hnút sem herðir að skólastarfinu. Í ljósi þess djúpstæða stjórnunarvanda sem við blasir að hefur viðgengist innan skólans undanfarin misseri og þess trúnaðarbrests sem fyrir hendi er milli skólastjóra og kennara er augljóst að mati fundarins að varanleg lausn á vandanum getur ekki falist í neinu öðru en því að núverandi skólastjóri, Dagný Annasdóttir, hverfi frá því starfi.

Ályktun þessi er send á sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs og alla kjörna fulltrúa í skóla- og frístundaráði, auk borgarstjóra.

Samþykkt einróma.“ 

 

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV