Spyr hvort ástæða sé til rannsóknar hér heima

16.02.2016 - 20:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi til heilbrigðisráðherra um rannsókn á þætti Landspítalans í umdeildri plastbarkaígræðslu á Karólínska í Stokkhólmi.

Íslenskur læknir tók þátt í fyrstu slíku aðgerðinni og var ásamt öðrum íslenskum lækni meðhöfundur að fyrstu vísindagreininni um aðgerðina. Síðar hefur komið í ljós að aðgerðin heppnaðist ekki.

Efni úr heimildarmynd Elínar um stofnfrumur er meðal gagna sem þykja varpa nýju ljósi á bata sjúklingsins eftir aðgerðina. 

Elín spyr hvort Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra telji æskilegt að gerð verði óháð rannsókn á þætti Landspítalans í meðferð sjúklingsins. Þá spyr hún hvort hann telji að hér á landi séu starfandi læknar sem engra hagsmuna hafi að gæta og séu færir um að rannsaka málið.

Landspítalinn og Háskóli Íslands hafa sagt að ekki standi til að rannsaka málið hérlendis en báðar stofnanir aðstoða við rannsókn Karólínska í Svíþjóð.