Spurningum ósvarað um uppreist æru

16.07.2017 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna segir að ekki sé nógu skýrt hvaða forsendur liggja að baki því að dæmdur kynferðisafbrotamaður fékk uppreist æru. Allt of mörgum spurningum sé ósvarað. Hún hefur óskað eftir fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna þessa.

Kynferðisbrotamaðurinn Robert Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, fékk uppreist æru í júní og hefur sú ákvörðun vakið hörð viðbrögð. Róbert var árið 2008 dæmdur í þriggja ára fangelsi í Hæstarétti fyrir að brjóta gegn fjórum stúlkum á aldrinum 14 og 15 ára. Hæstiréttur ákvað í júní að hann skyldi fá lögmannsréttindi sín aftur. Svandís segir að augljóslega þurfi að ræða þetta mál í samfélaginu og á þingi.
 
„Vegna þess að þarna er  er allt of mörgum spurningum ósvarað. Þetta tiltekna mál sem hefur verið í umræðunni í sumar hefur vakið mikla reiði víða í samfélaginu og virðist vera að hluta til vegna þess að ekki er nógu skýrt hvaða forsendur liggja að baki.“  
 
Svandís hefur óskað eftir því að dómsmálaráðuneytið komi á fundinn til að fara yfir lggjöfina, hvaða skilyrði þarf að uppfylla og afhverju sumir uppfylla þau en ekki aðrir. Einnig kemur fulltrúi lögmannafélagsins á fundinn og rætt verður um hvernig þessum málum er háttað í löndunum í kringum okkur. 
Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, hyggst leggja fram frumvarp á Alþingi í haust þar sem gerðar verða breytingar á því hvernig menn hljóta uppreist æ ru. Svandís á von á því að það verði einnig til umræðu
 
„Í ljósi þess að það eru líka viðbrögð hjá ráðherranum í sjálfu sér við þessari samfélagsumræðu, en ég hef ekki myndað mér endanlega skoðun á því hvernig þessi nálgun hennar kemu r til móts við þessi samfélagslegu sjónarmið.“
 
Hvað ertu að vonast til að komi út úr fundinum? Fyrst og fremst skýrari mynd af bæði lagaumhverfinu og framkvæmdinni og vonandi þá einhver sameiginlegur skilningur fulltrúa í stjórnskipunar og eftirlitsnefnd hvað þarf að bæta.“