Spurði hvers vegna ekki mætti ræða mál Roberts

30.08.2017 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, telur skjóta skökku við að ekki sé hægt að ræða mál Róberts Downey sérstaklega á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Uppreist æru sé opinbert hugtak sem lúti að persónu fólks sem snúi að samfélaginu. Dómsmálaráðherra sagði þingmenn verða að bera þroska til þess að mál einstakra manna séu ekki rædd á opinberum vettvangi.

Þórhildur Sunna sagði að upplýsa þurfi fólk um hvað átti sér stað í ferlinu, til að eyða tortryggni í samfélaginu. 

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, sagði á fundi nefndarinnar í morgun að ekki væri hægt að ræða einstök mál fyrir nefndinni og ekki væri hægt að upplýsa hverjir mæltu með því að Robert Downey fengi uppreist æru. Almennt séu viðkvæmar upplýsingar sem berist ráðuneytinu í slíkum málum.  Ekki sé víst að allir átti sig að margir dómar sem slíkar umsóknir varða hafi verið kveðnir upp í lokuðu þinghaldi og því ekki opinberar upplýsingar.

Þótt dómar séu birtir þá hafa þeir verið nafnhreinsaðir af virðingu við brotaþola. Því hafi nafnalisti um þá sem hafa hlotið uppreist æru ekki verið birtir. Þá komi einnig fram upplýsingar í gögnum málsins sem lögum samkvæmt teljast viðkvæmar heilsufarsupplýsingar. Þessi atriði hafi leitt til þess að afgreiðsla þessara mála hafa ekki verið opinberar frekar en önnur mál sem komi til afgreiðslu í dómsmálaráðuneytinu. Fjölmiðlaumfjöllun breyti þar engu um. 

Þórhildur Sunna spurði dómsmálaráðherra, hvaða lög komi í veg fyrir að hægt að ræða þetta einstaka mál. Hún spurði hvort lögreglan væri að rannsaka mál á hendur honum og hvort skjöl sem varða mál Rorberts Downey væru týnd eða skemmd. Ef svo, er hver bæri ábyrgð á því. Þá vildi hún vita hvort nöfn allra 100 stúlknanna sem tilgreind voru í minnisbók Róberts hafi verið rannsökuð. 

Þá spurði Þórhildur Sunna hvort Robert hafi fengið sérstaka meðferð, hvort hann hafi ekki þurft að uppfylla tímafrest um fimm ára frest? Robert hafi fengið uppreist æru 2016 en þá hafði umsóknin legið í ráðuneytinu í tvö ár. „Því var henni ekki vísað frá?  Þóttu sérstakar ástæður liggja fyrir undanþágu?“ spurði Þórhildur Sunna.

Sigrður sagði að ráðuneytið hafi aldrei haft aðgang að gögnum í sakamálum. Því geti hún ekki svarað spurningum um rannsókn lögreglu. Þá sagði hún þingmenn verða að bera þroska til þess að mál einstakra manna séu ekki rædd á opinberum vettvangi. Umsókn Roberts hafi borist 2014 og hafi verið afgreidd 2016. Tveggja ára frestur hafi því verið virtur.