Sprenging við fjölbýlishús í Svíþjóð

07.01.2016 - 03:51
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Íbúar fjölbýlishúss í Vällingby í Svíþjóð vöknuðu við mikinn hvell í nótt. Mikill eldur blossaði upp í kjölfar sprengingarinnar og þurfti að rýma húsið. Skóli var gerður klár fyrir þau sem þurftu að yfirgefa heimili sín.

Fimm voru fluttir á sjúkrahús af völdum brunans. Þar af einn vegna fótbrots sem hann hlaut við að stökkva fram af svölum. Eldurinn virðist hafa kviknað í verslun sem er á neðstu hæð hússins. Slökkviliðsmönnum tókst að slökkva eldinn um klukkan fimm í morgun.

Sænska ríkissjónvarpið hefur eftir manni sem býr í nágrenni við húsið að hann hafi vaknað upp við mikinn hvell og svo hafi íbúðin hans öll lýst upp. Hann hringdi umsvifalaust í lögregluna.

Lögregla er nú með tvo menn í haldi, grunaða um að hafa valdið bruannum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV