Spenna fyrir kosningar í Noregi á mánudag

09.09.2017 - 07:00
Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, greiðir atkvæði í þingkosningunum 2013.
Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, greiðir atkvæði í þingkosningunum 2013.  Mynd: EPA  -  NTB SCANPIX
Mikil spenna er fyrir kosningarnar í Noregi á mánudag. Kannanir gefa til kynna að borgaraflokkarnir fái meirihluta á þingi. Margir telja þó óvíst að stjórnarsamstarf verði með sama hætti og undanfarin ár.

Kjörtímabilið í Noregi er fjögur ár. Kosnir verða 169 fulltrúar til að sitja á norska Stórþinginu. Átta flokkar eiga fulltrúa á fráfarandi þingi. Minnihlutastjórn Hægri-flokksins og Framfaraflokksins hefur setið í Noregi undanfarin fjögur ár, með stuðningi Kristilega þjóðarflokksins og miðjuflokksins Venstre. Erna Solberg, leiðtogi Hægri flokksins, hefur gegnt embætti forsætisráðherra.

Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, á kosningavöku 2015.
Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, á kosningavöku 2015.  Mynd: EPA  -  NTB SCANPIX

Verkamannaflokkurinn hefur lengst af verið stærsti flokkur Noregs og var í ríkisstjórn stóran hluta síðustu aldar. Flokkurinn hefur einnig verið í stjórn í upphafi þessarar aldar en illa gekk í síðustu kosningum árið 2013. Þá fékk Verkamannaflokkurinn 30,8 prósent atkvæða sem var versta niðurstaða flokksins í kosningum frá 1924. Flokkurinn fékk þó 55 þingsæti og var áfram stærsti flokkurinn á þingi. Jonas Gahr Støre, tók við stjórnartaumunum í Verkamannaflokknum um mitt ár 2014, en hann hafði gegnt embætti utanríkis- og heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn forvera síns Jens Stoltenbergs. Fljótlega eftir það jókst fylgi flokksins á ný, en frá 2015 hefur sigið á ógæfuhliðina á ný og hefur fylgið verið innan við 30 prósent síðustu vikur. Í könnun sem gerð var fyrir norska ríkisútvarpið NRK í síðasta mánuði kváðust fleiri styðjua Hægri-flokkinn en Verkamannaflokkinn, en í nýjustu könnunum er Verkamannaflokkurinn með forystu þótt ekki sé hún mikil. Í kringum 26 prósent segjast ætla að kjósa flokkinn.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs og leiðtogi Hægriflokksins, á blaðamannafundi í Berlín 2016.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs og leiðtogi Hægriflokksins, á blaðamannafundi í Berlín 2016.  Mynd: EPA  -  DPA

Erna Solberg forsætisráðherra hefur verið leiðtogi Hægri-flokksins í rúm þrettán ár, frá 2004. Hún hefur setið á þingi frá 1989 og sat í ríkisstjórn Kjells Magne Bondeviks  2001-2005. Hægri-flokkurinn hlaut 26, 8 prósent atkvæða og 48 þingsæti í síðustu kosningum og myndaði, eins og fram hefur komið, minnihlutastjórn með Framfaraflokknum. Solberg varð þannig önnur konan til að gegna embætti forsætisráðherra í Noregi. Fyrst var Gro Harlem  Brundtland, sem var leiðtogi Verkamannaflokksins 1979-1996. Þótt Verkamannaflokkurinn sé með heldur meira fylgi en Hægri-flokkurinn, sýna kannanir að fleiri vilja að Erna Solberg verði áfram forsætisráðherra en að Jonas Gahr Støre taki við. Fylgi flokksins hefur í könnunm verið í kringum 24 prósent undanfarnar vikur.

Siv Jensen, fjármálaráðherra og formaður Framfaraflokksins.
Siv Jensen, fjármálaráðherra og formaður Framfaraflokksins.  Mynd: EPA  -  NTB SCANPIX

Framfaraflokkurinn er þriðji stærsti flokkurinn í Noregi, en þar hefur Siv Jensen fjármálaráðherra fyrst kvenna haldið um stjórnartaumana í ellefu ár eða frá október 2006. Í kosningum þremur árum síðar hlaut Framfaraflokkurinn 22,9 prósent atkvæða og 41 þingsæti, sem er besti árangur flokksins, og var hann næst stærsti flokkurinn á þingi. Árið 2013 hlaut Framfaraflokkurinn  hins vegar 16,3 prósent atkvæða og 29 þingsæti. Kannanir gefa til kynna að flokkurinn fái svipað eða jafnvel örlítið meira í kosningunum á mánudag.

Kristilegi þjóðarflokkurinn, sem varið hefur stjórnina falli, varð í fjórða sæti í síðustu kosningum og fékk 5,6 prósent atkvæða og tíu menn kjörna. Knut Arild Hareide hefur stýrt flokknum síðan í október 2013. Hann var umhverfisráðherra í rúmt ár í stjórn Kjells Magne Bondeviks frá júní 2004. Í könnunum hefur fylgi hans verið í kringum 4,5 prósent.

Miðflokkurinn fékk 5,5 prósent atkvæða í kosningunum 2013 og tíu þingsæti eins og Kristilegi þjóðarflokkurinn. Þar er leiðtoginn  Trygve Slagsvold Vedum, en hann tók við stjórnartaumum í flokknum fyrir þremur árum. Vedum var matvæla- og landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Jens Stoltenbergs 2012-2013. Fylgi Miðflokksins hefur aukist talsvert ef marka má kannanir er nú í kringum 10 prósent, þannig að líklegast verður hann í fjórða sætinu á mánudaginn.

Miðflokkurinn Venstre, sem eins og Kristilegi þjóðarflokkurinn ver , ríkisstjórn Ernu Solberg falli, er nú með 3,5-4,5 prósenta fylgi. Flokkurinn fékk 5,2 prósent atkvæða fyrir fjórum árum og níu þingsærti. Þar hefur Trine Skei Grande verið í forystu síðan í september 2013.

Sósíalíski vinstriflokkurinn hefur verið með 5-6 prósenta fylgi í könnunum, en fékk árið 2013 4,1 prósent og sjö þingsæti. Flokkurinn var í ríkisstjórn í seinni stjórnartíð Jens Stoltenbergs 2005-2013. Audun Lysbakken hefur verið leiðtogi flokksins frá 2012.

Umhverfisflokkurinn náði einum manni á þing í síðustu kosningum og 2,8 prósent atkvæða. Kannanir benda til að flokkurinn fái allt að 4,5 prósent atkvæða: Helstu talsmenn flokksins, eru Une Aina Bastholm og þingmaðurinn Rasmus Hansson.

Rauði flokkurinn, sem er lengst til vinstri, er með rúmlega þrjú prósent í könnunum. Flokkurinn var stofnaður árið 2007 við samruna tveggja smáflokka. Þar er leiðtogi Björnar Moxnes.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV