Spara stórfé á að sækja bíla til Þýskalands

17.11.2016 - 10:28
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Íslendingar fara nú oftar til útlanda til að kaupa bíl. Hjá Smyrli Line, sem rekur ferjuna Norrænu, hafa menn orðið varir við að sífellt fleiri aki á nýkeyptum bíl inn í ferjuna í Hirtshals í Danmörku og sigli með bílinn til Seyðisfjarðar.

„Við sjáum aukningu bæði á því að fólk kaupi bíl, keyri hann upp í Hirtshals og ferðist með skipinu til baka. Einnig á því að fólk flytji bílana sem frakt. Það er alveg ljóst að það er aftur orðinn möguleiki á að kaupa bíl erlendis út af styrkingu krónunnar,“ segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá tollinum á Seyðisfirði er mest um að menn kaupi bíla frá Þýskalandi en einnig frá hinum norrænu löndunum, Póllandi og Hollandi. 

Einn viðmælandi fréttastofu fór út til Þýskalands fyrir mánuði og keypti sér nýjan fólksbíl í umboði þar og fullyrðir að hann hafi fengið bílinn 1,3 milljónum króna ódýrari en ef hann hefði keypt hann á Íslandi. Þá er búið að borga alla tolla og kostnað við að flytja bílinn til landsins.

Vetrarfarþegum Norrænu fjölgar líka

Yfir vetrarmánuðina siglir ferjan aðallega með frakt og segir Linda að aukning sé á bæði inn- og útflutningi en einnig á farþegafjölda. Farþegatíminn lengdist talsvert þegar svokallaðar „cruise“ rútur fóru að koma með farþega í stuttar Íslandsheimsóknir að vori og hausti. Það sem af er þessum vetri hefur hins vegar verið talsvert um erlenda ferðalanga á eigin bílum og í nóvember hafa allt upp í 20 farartæki komið í einni og sömu ferðinni. Forsvarsmenn Smyril Line hafa gripið til ráðstafana og varað ökumenn við aðstæðum sem geta skapast á Íslandi. „Þegar fólk bókar eigin bíl fær það upplýsingar um að veður geti verið allskonar og upplýsingaskjáir hafa verið settir upp í skipinu um veður og færð,“ segir Linda.

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV