Spámennirnir í Botnleysufirði - Kim Leine

Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Bók vikunnar

Spámennirnir í Botnleysufirði - Kim Leine

Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Bók vikunnar
Mynd með færslu
21.04.2016 - 11:17.Jórunn Sigurðardóttir.Bók vikunnar
Profeterne ved evighedsfjorden eða Spámennirnir í Botnleysufirði eftir hinn dansk-norska Kim Leine í íslenskri þýðingu Jóns Halls Stefánssonar er Bók vikunnar. Hér má heyra lesið úr bókinni sem og símaviðtal við þýðandann, sem er búsettur í Danmörku. Á sunnudag klukkan 10:15 á rás eitt ræðir Auður Aðalsteinsdóttir við þá Hauk Ingvarsson doktorsnema í bókmenntafræði og Sumarliða Ísleifsson sagnfræðing um þennan mikla sagnabálk um kristniboðann Morten Falck á Grænlandi á síðasta áratug 18. aldar.

Spámennirnir í Botnleysufirði eða Profeterne ved Evighedsfjorden kom fyrst út í Danmörku árið 2012 og er fjórða bókin sem Kim Leine skrifaði um lífið og söguna á Grænlandi þar sem hann sjálfur bjó og starfaði til margra ára.

Sögusvið bókarinnar fer þó víðar en aðalpersóna bókarinnar, Morten Falck, fæddist í Noregi, stundaði síðan guðfræðinám í Kaupmannahöfn, sem þá, á síðari hluta 18. aldar, var höfuðborg hins dansk-norks konungsdæmis. Að náminu loknu heldur Morten sem kristniboði til Grænlands. Þar ílengist hann þó ekki til að byrja með sem á sér margvíslegar orsakir. Hann heldur því aftur heim til Akershus og tekur sér góðan tíma í það ferðalag. Heimkominn verður hann síðan að horfast í augu við að þar er ekki lengur hans heima.

Sagan gerist á síðustu árum 18. aldar, nýir straumar upplýsingarinnar og efa um að kristin trú, eins og andleg og veraldleg yfirvöld boða hana sé hin eina rétta, fara um Evrópu sem eldur í sinu og ná jafnvel til Grænlands.

Kim Leine fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Spámennina í Botnleysufirði en þá hafði bókin þegar hafið sigurför sína um heiminn. Íslensk þyðing Jóns Halls Stefánssonar kom út árið 2015 og var tilnefnd til Íslensku þýðingarverðlaunanna árið 2016.

Leifur Hauksson les hér 3. kaflann í fyrsta huta bókarinnar. Þar íhugar kristniboðinn Morten Falck stöðu sína og framtíðarhofur eftir að hafa dvalið fimm ár sem kristniboði við Botnleysufjörð. Á eftir viðtalinu við þýðandann, Jón Hall Stefánsson, sem segir frá bókinni, vinnunni við þýðinguna og erendi verksins við samtíma sinn má svo aftur heyra Leif Hauksson lesa úr bókinni. Að þessu sinni stuttan kafla úr síðari hluta bókarinnar þar sem Morten Falck er kominn til Kaupmannahafnar um miðjan síðasta áratug 18. aldar. Hann horfir á rústir „eldsins mikla í Kaupinhafn“ og íhugar enn á ný stöðu sína og samband sitt við Grænland.